EN

Sergej Rakhmanínov: Rapsódía um stef eftir Paganíní

Sergej Rakhmanínov (1873–1943) sýndi snemma mikla tónlistarhæfileika og komst fljótlega í læri hjá einkakennara áður en fjölskyldan fluttist búferlum til Sankti Pétursborgar árið 1882. Í öndverðu hafði faðir Rakhmanínovs hug á að drengurinn sækti sér frama innan hersins en fjölskyldan var lítt efnum búin og herskóli reyndist of dýr. Það var kannski eins gott því um svipað leyti hlaut Rakhmanínov inngöngu í Tónlistarháskólann í Sankti Pétursborg. Hann var enginn afburðanemandi en hæfileikarnir voru óumdeildir. Tólf ára gamall var hann því sendur til Moskvu. Þar naut hann þar leiðsagnar Nikolajs Zverevs og lauk lokaprófi í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Moskvu. Hinn ungi Rakhmanínov hlaut hæstu einkunn og æðstu viðurkenningu skólans sem aðeins tveimur öðrum nemendum hafði áður fallið í skaut. Á Moskvuárunum komst Rakhmanínov í kynni við marga af helstu tónlistarmönnum Rússlands, þar á meðal Pjotr Tsjajkovskíj sem átti eftir að hafa mikil áhrif á fyrstu tónsmíðar hans. 

Rakhmanínov leit fyrst og fremst á sig sem tónskáld en hann var ekki bara hæfileikaríkur hljómsveitarstjóri heldur einnig einn fremsti píanóleikari veraldar á sinni tíð (hann var með óvenju stórar hendur). Sem tónskáld sótti hann innblástur í 19. öldina ásamt því að þróa áfram eigin síðrómantískan stíl. Hann samdi meðal annars fjóra píanókonserta en eftir að hafa flust vestur til Bandaríkjanna í kjölfar októberbyltingarinnar 1917 í Rússlandi dró verulega úr afköstum hans sem tónskálds. Þess í stað neyddist Rakhmanínov til þess að halda tónleika til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða. Fór enda svo að af 45 verkum sem Rakhmanínov samdi um ævina voru aðeins sex samin eftir að hann fluttist vestur um haf. 

Rakhmanínov lauk við fjórða píanókonsert sinn árið 1933 og aðspurður kvaðst hann enn eiga eitthvað ósamið.Þannig sagðist hann hvíla sig á sumrin frá tónleikahaldi með því að semja tónlist. Fór enda svo að í nóvember árið 1934 var í Maryland frumflutt eftir hann nýtt verk, Rapsódía um stef eftir Paganini, með tónskáldið sem einleikara (Fíladelfíu-hljómsveitin lék og hljómsveitarstjórinn var enginn annar en Leopold Stokowski). Stefið sem Rakhmanínov leggur til grundvallar í verkinu þekkja allir. Það er sótt í 24. kaprísu Nicolòs Paganinis, lokastykkið úr miklu fingurbrjótasafni fiðlusnillingsins sem hefur orðið mörgum tónskáldum að yrkisefni, svo sem Lutosławski og Andrew Lloyd Webber.

Verkið hefst á kraftmiklum inngangi þar sem einungis bassagangur stefsins heyrist en ekki stefið sjálft. Þá heyrist Paganini-stefið leikið af fiðlum. Smám saman eykst spennan uns Rakhmanínov vitnar í Dies irae-sönginn úr sálumessu kaþólskra sem hann gerði alloft í verkum sínum. 

Tilbrigði Rakhmanínovs eru 24 talsins – flest afar stutt – en 18. tilbrigðið er það frægasta, um það bil þriggja mínútna undurblíður síðrómantískur kafli þar sem aðalstefi Paganinis er snúið á hvolf. „Ég samdi þetta tilbrigði fyrir umboðsmanninn minn“ á Rakhmanínov einmitt að hafa sagt um 18. tilbrigðið. Þá tekur við æsilegur leikur einleikarans og reynir mjög á tæknilega getu hans. Einleikari og hljómsveit sameina síðan krafta sína og í lokatöktunum virðist allt ætla um koll að keyra. 

Rapsódía um stef eftir Paganini er, ásamt Sinfónískum dönsum (1940), frægasta verkið sem Rakhmanínov samdi á Ameríkuárum sínum (1917–1943). Hann lést úr krabbameini í Kaliforníu í mars 1943, átta dögum eftir sjötugsafmæli sitt.

 

Magnús Lyngdal Magnússon