EN

Sigurður Árni Jónsson: Illusion of Explanatory Depth

Sigurður Árni Jónsson er tónskáld og stjórnandi búsett í Svíþjóð. Hann lærði tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Tónlistarháskólann í Gautaborg og hljómsveitar- og kórstjórn við Tónlistarháskólann í Piteå. Verk hans hafa verið flutt meðal annars af Sinfóníuhljómsveitinni í Norrköping, Sinfóníuhljómsveit Norrlands-Óperunnar í Umeå, Norrbotten Neo, Esbjerg-tónlistarhópnum í Danmörku og Caput og verið á dagskrá hátíða á borð við Myrka Músíkdaga, UNM og New Directions Festival. Sigurður er stjórnandi Ensemble Dasein, sjálfstæðrar kammersveitar sem sérhæfir sig í frumflutningi verka eftir upprennandi norræn tónskáld.

Engin bein tenging er milli titils og verks, en sem hugleiðing um ranghugmynd okkar um eigin útskýringargetu þykir mér verkið líkara tölum en sögu. Tölum sem þröngva þarf í frásögn svo við getum talið okkur skilja þær. En hinn hljómandi afrakstur, sjálf tónlistin, er ekki hugleiðing heldur, heldur frekar einhver niðurstaða hugleiðinga minna á meðan smíði stóð, um frásagnir, um sögur sem við segjum okkur sjálfum. Niðurstaða sem er þröngvuð fram því ný saga þarf að fá að byrja. Þjösnuð saman eru tengslin svo augljós eftir á að ég get ekki tekið þau alvarlega; hvernig syngjandi upphafslínan brotnar niður í hvassari, styttri kafla og ólíkar endurtekningar - tilraunir til útskýringa - en þráist svo við eins og minni í kaosinu - frásögn sem þráir merkingu.