EN

Sigvaldi Kaldalóns: Nóttin var sú ágæt ein

Sigvaldi Kaldalóns er eitt ástælasta sönglagaskáld þjóðarinnar. Hann samdi m.a. perlur eins og Ísland ögrum skorið, Á Sprengisandi og Suðurnesjamenn. Nóttin var sú ágæt ein hefur líka verið eitt af vinsælustu lögum hans um áratuga skeið.

Sálmurinn er eftir sr. Einar Sigurðsson í Eydölum (1539-1626) sem var mikið sálmaskáld. Guðbrandur biskup Þorláksson var hrifinn af skáldskap Einars og valdi mörg kvæði eftir hann í Vísnabókina sem hann gaf út á Hólum árið 1612. Þeirra á meðal er jólasálmurinn Nóttin var sú ágæt ein. Sálmur sr. Einars lá í gleymsku svo öldum skipti, eða þar til hann var prentaður í tímaritinu Vikunni um jólaleytið 1940. Sigvaldi hreifst strax af sálminum og samdi lagið á aðeins fáeinum dögum; það var fullgert fyrir áramót. Hinn 30. desember sama ár skrifaði hann Ragnari Ásgeirssyni eftirfarandi línur:

„Kæri vin. Ég sendi þér nú hérmeð jólalagið, sem ég hefi gert á þessum jólum við indælan texta, sem ég fann í Vikunni, sem ég annars aldrei les; en þegar ég sá þetta kvæði, og sá hvað það var fallegt, þá reyndi ég að hnoða við það og sendi þér hér með; vona að ykkur þyki það sæmilegt.“