EN

Sofia Gubaidulina: Fachwerk

Sofia Gubaidulina er eitt virtasta samtímatónskáld heims. Hún fæddist í október árið 1931 og fagnar því níræðisafmæli sínu rúmum mánuði eftir að verk hennar, Fachwerk, verður flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún stundaði nám við Tónlistarháskólann í Moskvu þar sem Dmitríj Shostakovitsj var meðal stuðningsmanna hennar, en framsækin tónlist Gubaidulinu vakti litla hrifningu yfirvalda í Sovétríkjunum. Hún var sett á svartan lista yfirvalda árið 1979 og fluttist skömmu síðar til Þýskalands þar sem hún hefur verið búsett síðan. Gubaidulina hefur samið fjölda verka fyrir fremstu tónlistarmenn heims, m.a. fiðlukonsertana Offertorium fyrir Gidon Kremer og In tempus praesens fyrir Anne-Sophie Mutter. Fachwerk er konsert frá árinu 2009 fyrir bayan (takkaharmóníku), slagverk og sinfóníuhljómsveit, sem gagnrýnendur segja að sé „töfrandi verk“ og jafnvel meðal hennar bestu.