EN

Sveinn Lúðvík Björnsson: Glerhjallar

Sveinn Lúðvík Björnsson (f. 1962) stundaði nám í klassískum gítarleik, píanóleik og söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hann við Konunglegu dönsku tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Heimkominn lagði hann stund á tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík í önnur fjögur ár með Atla Heimi Sveinsson sem aðalkennara. Hann sótti einnig sumarnámskeið í tónsmíðum í Kazimierz Dolny, þar sem Witold Lutosławski var meðal kennara hans. Hann starfaði í nokkur ár sem tónfræði- og gítarkennari en hefur frá árinu 1994 starfað eingöngu að tónsmíðum. 

Hljómsveitarverkið Glerhjallar varð til árið 2019 og er tileinkað minningu Atla Heimis Sveinssonar. Sveinn Lúðvík lætur eftirfarandi texta fylgja verkinu: „Ég er á göngu um nótt. Það er stjörnubjart og fullt tungl lýsir mér leið. Það brakar í hjarninu undir fótum mér. Mér er litið til vinstri, upp eftir hrímþöktu fjallinu sem gnæfir yfir mér. Klakabrynjaðir hjallar glampa eins og gler í tungsljósinu. Glerhjallar hugsa ég og íhuga um stund samspilið í alheiminum. Hvernig sólarljós sem tunglið endurkastar til okkar kveikir þennan glampa. Svona styður allt hvert annað bæði í náttúrunni og í alheiminum. Ég horfi upp í himinhvolfið, ljóðrænt tunglið og draumkenndar stjörnur, þangað viljum við fara þegar jörðin er orðin okkur óbyggileg. Skrítið? Var það ekki geimfari sem sagði „við fórum til þess að kanna tunglið en uppgötvuðum jörðina“. Er það ekki akkúrat það sem við verðum að fara að gera? Engin getur lifað við vanvirðingu og ástleysi í langan tíma, ekki einusinni jörðin. Hún mun hrista okkur af sér. Það bætir ekki heimilisofbeldi þó að gerandinn skipti um maka og stofni nýja fjölskyldu. Kærleikur, virðing og ást eru gjafir sem okkur eru færðar til þess að næra ef við viljum. Vonandi tekst mér það. Þegar eitthvað hverfur fyrir fullt og allt, ástvinur, landsvæði, vinátta, dýrategund, andleg og líkamleg heilsa, dregur það mig inn í andleg átök sem enda annaðhvort með sátt eða skelfilegri örvæntingu. Mig langar að eiga tíma til þess að þroskast.“