EN

Thomas Adès: In Seven Days, píanókonsert

Píanókonsertinn In Seven Days (Á sjö dögum) eftir Thomas Adès var frumfluttur árið 2008. Það liggur vel fyrir Adès að semja fyrir píanó enda er hann sjálfur afburða píanóleikari og hefur haldið einleikstónleika meðal annars í Carnegie Hall. Árið 2018 samdi hann annan píanókonsert fyrir Kirill Gerstein og Sinfóníuhljómsveitina í Boston og hlaut hann afbragðs góðar viðtökur rétt eins og sá fyrri.

In Seven Days er í sjö þáttum sem mynda eina samhangandi heild og spegla sjö daga sköpunarsögunnar samkvæmt Fyrstu Mósebók. Upphafið (Kaos – Ljós – Myrkur) hefst með því sem tónskáldið kallar „bylgjur“ í strengjum, þær virðast óreiðukenndar í fyrstu en taka smám saman á sig agaðra form. Næsti hluti (Aðgreining vatnanna í sjó og himin) lýsir sterkum andstæðum; hann hefst því með glitrandi hendingum á efsta tónsviði píanósins yfir hægum og djúpum tónum. Hraðar píanórunur á háu tónsviði eru einnig áberandi í fjórða hluta (Stjörnur – Sól – Tungl) enda fer vel á því að kalla fram glitrandi tónavef þegar lýsa á blikandi stjörnum. Næstu tveir hlutar eru fúgur þar sem meginstef ferðast milli ólíkra hljóðfæra. Lokaþáttur verksins er hugleiðing þar sem sjö tóna stef eru áberandi. Undir lokin hljómar bergmál upphafstónanna sem gefur til kynna að sköpunarsagan sé þrátt fyrir allt eins konar hringrás. 

In Seven Days hljómaði fyrst í Royal Festival Hall í Lundúnum í flutningi Nicolas Hodges og Sinfóníettu Lundúna undir stjórn tónskáldsins sjálfs. Upphaflega fylgdi konsertinum vídeóverk eftir Tal Rosner, en þess má geta að Rosner hannar útlit Valkyrjunnar eftir Richard Wagner sem flutt verður á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík í febrúar á næsta ári.