EN

Thomas Larcher: Sinfónía nr. 2

Thomas Larcher (f. 1963) er eitt virtasta samtímatónskáld Austurríkis og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Hann var staðartónskáld í Concertgebouw í Amsterdam tónleikaárið 2019–20 og í fyrra hlaut hann æðstu listaverðlaun listamanna í heimalandi sínu, Austurrísku þjóðarverðlaunin, en þau eru árlega veitt einum framúrskarandi listamanni.

Sinfónía hans nr. 2, Kenotaph (Stríðsminnisvarði), er metnaðarfyllsta hljómsveitarverk hans, samið til minningar um flóttamenn sem drukknað hafa undanfarin ár í Miðjarðarhafi. Það var frumflutt af Fílharmóníusveit Vínarborgar árið 2016. Verkið er í fjórum þáttum og hefur fengið frábæra dóma, bæði í Vínarborg og á Proms-tónlistarhátíðinni þar sem Sinfóníuhljómsveit Breska útvarpsins flutti það við gífurlegan fögnuð skömmu eftir frumflutninginn. Tónsmíðastíll Larchers er einkar fjölbreyttur, tónskáld eins og Mahler, Prokofíev og Arvo Pärt koma af og til upp í hugann, en þó hefur hann sinn sérstæða og frumlega tón sem nýtur sín til fullnustu í þessu merkilega verki.