EN

Þuríður Jónsdóttir: Flow and Fusion

Þuríður Jónsdóttir (f. 1967) er gjörn á að kanna nýja hljóðheima í verkum sínum. Mörg þeirra eru studd rafhljóðum, önnur innihalda leikræna tilburði, náttúruhljóð eða þátttöku áheyrenda. Í tónlist hennar má gjarnan greina ólíkt flæði: annað hægferðugt, síbreytilegt og nánast lífrænt, hitt vélrænt, hrátt og endurtekningasamt. Heyra má miklar andstæður þegar ólík efni mætast og háværir, snöggir blossar rjúfa örveikt og hægt ferlið.

Meðal helstu verka Þuríðar má nefna flautukonsertinn Flutter sem saminn var fyrir ítalska flautusnillinginn Mario Caroli, en skordýrahljóð leika þar kontrapunkt við hljómsveitina, Flow and Fusion fyrir stóra umbreytta hljómsveit, Rauðan hring fyrir kór, einsöngvara og rafhljóð, INNI – musica da camera fyrir barrokkfiðlu og hljóðvoðir ungabarns, og harmónikkukonsertinn Installation Around a Heart sem saminn var fyrir hinn þekkta norska harmónikkuleikara Geir Draugsvoll og Caput. 
Þuríður nam flautuleik og tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Konservatoríið í Bologna á Ítalíu þar sem hún lauk diplómagráðu í flautuleik, tónsmíðum og raftónlist. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá Franco Donatoni hjá Accademia Chigiana í Siena og Alessandro Solbiati hjá Accademia di Novara á Ítalíu. Eftir áralanga dvöl á Ítalíu býr Þuríður nú í Reykjavík og starfar að list sinni og tónlistarkennslu. Verk eftir Þuríði hafa verið pöntuð og flutt af ýmsum tónlistarhópum og flutt á hátíðum eins og Présences í París, November Music, Klang í Kaupmannahöfn, á Norrænum músíkdögum, ISCM og New Directions. Verk Þuríðar hafa verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012. Í febrúar næstkomandi mun Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari frumflytja verk eftir Þuríði í nýrri tónleikahöll Hamborgar en einnig hefur Fílhamóníuhljómsveit Los Angeles pantað hjá henni verk til frumflutnings í apríl á næsta ári.

Þegar Flow and Fusion var fyrst flutt á Íslandi sagði Þuríður þetta um verk sitt: „Eitt af því sem ég hafði í huga þegar ég skrifaði Flow and Fusion voru ólíkir taumar flæðandi glóðheitrar bergkviku sem sameinuðust í einni iðandi hraunkvoðu, sem storknaði svo, varð að kletti … og endurómaði“.