EN

Toru Takemitsu: I hear the Water dreaming

Toru Takemitsu (1930–1996) er fyrsta tónskáldið frá Asíu sem náði frama í klassískum tónlistarheimi Vesturlanda. Hann fæddist í japönsku höfuðborginni Tókýó og sextán ára gamall ákvað hann að verða tónskáld. Hann var í grundvallaratriðum sjálfmenntaður enda var vestræn tónlist bönnuð í Japan á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann kynntist vestrænni tónlist í útvarpi bandaríska setuliðsins eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, ekki einungis djassi heldur einnig verkum Coplands og Schönbergs en hann hreifst einkum af franskri tónlist, Debussy og Messiaen. Má í stíl hans einnig greina áhrif frá djasstónlist og japönskum tónlistararfi. Tónlist Takemitsu er draumkennd og einkennist af næmri tilfinningu fyrir blæ og lit tónanna.

Tvítugur að aldri þreytti hann frumraun sína með píanóverkinu Lento in Due Movimenti en fyrsta verkið sem vakti athygli um allan heim var Requiem fyrir strengjasveit (1957); Stravinskij lýsti því yfir að það væri meistaraverk og eftir það stóðu Takemitsu ýmsar dyr opnar. Hann starfaði meðal annars náið með John Cage um skeið og það var bandaríska tónskáldið sem vakti aftur áhuga Takemitsu á hefðbundinni japanskri tónlist. „Um tíma hafði hún aðeins vakið í huga mér myndir af hörmungum stríðsins“, sagði hann síðar.

Takemitsu samdi I hear the Water dreaming fyrir flautu og hljómsveit árið 1987 fyrir bandaríska flautuleikarann Paula Robinson. Hér er hugmyndin um vatn samofin öðru hugtaki sem var miðlægt í sýn tónskáldsins á tónlist, því að dreyma. En hann leitar einnig fanga í vestur-áströlsku frumbyggjamálverki sem nefnist Water Dreaming og er fullt af goðsagnalegum táknum. Takemitsu skrifaði að verkið væri byggt á stefinu sem sólóflautan leikur nálægt upphafinu og kallast á við vatnstáknið í myndinni; þetta stef tekur stöðugum breytingum í röð upphafinna og draumkenndra þátta.