EN

Veigar Margeirsson: Rætur, 2. kafli, Leikur („Hættu að gráta hringaná“)

Saxófónninn er yngsta hljóðfærið í fjölskyldu tréblásturshljóðfæra (en þótt saxófónninn sé úr málmi er tónn hans myndaður með því að blása í munstykki með reyrblaði, og því telst hann til tréblásturshljóðfæra). Saxófónninn er nefndur eftir uppfinningamanni sínum, Belganum Adolphe Sax, sem fékk einkaleyfi á nýjunginni 1846. Saxófónninn er ekki meðal hefðbundinna hljóðfæra sinfóníuhljómsveitarinnar en ómissandi í stórsveitum og jazzsveitum af ýmsum stærðum og gerðum, auk þess að setja svip sinn á mörg stílbrigði popptónlistarinnar. Sigurður Flosason saxófónleikari, sem bæði er menntaður í klassískri tónlist og jazztónlist, vildi kanna muninn á þessum tveimur tónheimum og um leið möguleikana á spunatónlist innan konsertformsins þegar hann pantaði saxófónkonsert af tónskáldinu Veigari Margeirssyni (f. 1972), en Veigar hefur um árabil verið búsettur í Los Angeles og hefur notið mikillar velgengni í kvikmyndatónlistar. Kaflar konsertsins byggja að hluta á íslenskum þjóðlagastefjum og búa yfir spennandi blöndu af gömlu og nýju, jazz og klassík, skrifaðri tónlist og spuna. Annar kafli konsertsins nefnist Leikur og byggir að hluta á laginu sem ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Hættu að gráta hringaná, er jafnan sungið við - en auk þess geta glöggir hlustendur greint tilvitnun í annað vinsælt þjóðlag: Hani, krummi, hundur, svín. Sigurður Flosason frumflutti verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2007.