EN

Veronique Vaka: Inmost

Veronique Vaka (f. 1986) er tónskáld sem vert hefur verið að fylgjast með síðustu ár. Í mörgum verka sinna skráir hún og umritar breytingar sem eiga sér stað í íslenskri náttúru yfir á mál tónlistarinnar. Hverasvæðið í Krýsuvík og bráðnun jökla hefur verið efniviður fyrri verka hennar. Í þeim býr bæði kraftur og mýkt sem er sérlega áhrifamikið. 

Íslensk merking orðsins Inmost er „innstur“ eða „dýpstur“. Verkið er afurð rannsóknar og kortlagningar á landslagi Heklu þar sem Veronique Vaka rannsakaði gjóskudreifingu úr eldgosum á tímabilinu 3000 til 950 f.Kr. Verkið er unnið út frá þeim upplýsingum. Verkið er tileinkað Evu Ollikainen. Veronique Vaka pantaði meðfylgjandi ljóð þar sem andi verksins er fangaður.

Innsta mýksta heitasta
miðja
alein

auga Vítis - eða er það ástin?
aðalkraftur
jörð gefur sig

sáldrast
duft sprengjunnar
á okkur
á mosa
á tré
á kaldan klaka

setur mark
skrifar sögu
sína

heimur man

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir (2023)

Verkið Inmost eftir Veronique Vöku er frumflutt hér í kvöld en verk hennar hafa áður verið frumflutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar; m.a. Lendh árið árið 2020 og sellókonsertinn Gemæltan sem Sæunn Þorsteinsdóttir lék með hljómsveitinni í september í fyrra.