EN

W.A. Mozart: Sinfónía nr. 32

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) var einkar iðinn við sinfóníusmíðar á árunum 1770–74, samdi alls 20 slíkar (nr. 10– 30) á aðeins fimm árum. Síðan hægðist nokkuð á afköstunum enda varla við öðru að búast. Sinfónía nr. 32 varð til árið 1779, þegar Mozart hafði nýtekið við stöðu sem hirðorganisti í Salzburg. Hún er nokkuð óvenjuleg að því leyti að hér notar Mozart hið dæmigerða form ítalsks óperuforleiks, þar sem þrír stuttir þættir tengjast saman. Upphafs-„kaflinn“ er stutt og snaggaralegt sónötuform með tveimur andstæðum stefjum; þá tekur við ljúft rondó en þar næst snúa aðalstef upphafsþáttarins aftur – í öfugri röð. Ekki er vitað fyrir hvaða tilefni Mozart samdi þessa sinfóníu sína. Lengi var talið að hann hefði ætlað henni stað á undan einhverju leikhúsverki sem hann lauk ekki við, til dæmis Zaide eða Thamos, konungur Egyptalands. Slíkt er nú talið ólíklegt enda voru forleikir yfirleitt það síðasta sem Mozart samdi fyrir slík verk, jafnvel aðeins fáeinum dögum fyrir frumsýningu. Aðeins er vitað að Mozart stjórnaði sinfóníunni K. 318 einu sinni, í Vínarborg árið 1785, þegar hún var upptaktur að óperu eftir allt annað tónskáld, Francesco Bianchi.