EN

William Walton: Víólukonsert

William Walton (1902–1983) fæddist í Oldham í Lancashire á norðvestur Englandi. Faðir hans var kórstjóri og móðirin söngkona og lærði drengurinn ungur á fiðlu og píanó og söng síðar í kór föður síns. Hann var sjálfmenntað tónskáld líkt og landi hans Edward Elgar en fékk þó góð ráð frá svissneska hljómsveitarstjóranum Ernest Ansermet og ítalska tónskáldinu og píanóleikaranum Ferruccio Busoni. Walton skrifaði fyrsta tónverk sitt um tvítugt en þau áttu eftir að verða ríflega eitt hundrað á langri ævi. Þar á meðal eru tvær óperur, fjórir ballettar, tónlist við fjórtán kvikmyndir og sjö leikhúsverk sem og tvær sinfóníur en alls urðu hljómsveitarverkin nokkuð á þriðja tug talsins. Þá samdi Walton verk fyrir málmblásturshljóðfæri, kammerverk, píanótónlist, söngverk sem flest voru fyrir rödd og hljóðfærahópa en síðast en ekki síst kórverk og er óratorían Belshazzar’s Feast (Veisla Belsasars, 1931) í röð helstu verka hans.

Víólukonsertinn samdi Walton 1928–29 fyrir landa sinn, víóluleikarann Lionel Tertis en hann hafnaði honum á þeirri forsendu að hann væri of nútímalegur. Verkið var síðan frumflutt í London 3. október 1929 undir stjórn höfundarins en einleikari var þýska tónskáldið og víóluleikarinn Paul Hindemith. Var konsertinum tekið af mikilli hrifningu en Tertis sá sig um hönd og bætti honum á verkalista sinn.

Víólukonsert Waltons er um margt óvenjulegur. Hann er í þremur þáttum eins og títt er með einleikskonserta. Algengast er að jaðarkaflarnir séu hraðir en miðkaflinn hægur en kaflarnir í konserti Waltons eru í óvenjulegri röð. Sá fyrsti, Andante comodo, (frekar hægt og þægilega) er dreyminn með kröftugum millikafla og annar kaflinn stutt en glæsileg gletta. Þriðji kaflinn er að upplagi hressilegur en verkinu líkur á ægifögru draumkenndu eftirspili sem byggir á aðalstefi fyrsta kaflans.

Víólukonsertinn er upphaflega skrifaður fyrir stóra hljómsveit en Walton endurskoðaði verkið árið 1961. Fækkaði hann tré­ og málmblásurum en bætti hörpu í hljómsveitina og heyrum við þá útgáfu í kvöld.