EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Exsultate, jubilate – 1. Kafli, Exsultate, jubilate

Wolfgang Amadeus Mozart var rétt að verða sautján ára þegar hann samdi mótettuna Exsultate, jubilate og var verkið frumflutt í Sant'Antonio-kirkjunni í Mílanó í janúar 1773 þar sem hann hafði vetursetu með föður sínum. Heitið mótetta vísar vanalega til fjölradda verka fyrir kór, en hér er á ferðinni einskonar einleikskonsert fyrir sjálfa mannsröddina. Að líkindum var verkið ætlað til flutnings inni í messu, enda textinn trúarlegs eðlis og fyrsti kaflinn, sá sem hér hljómar, sannkallaður fagnaðarsöngur þar sem öllu er tjaldað til bæði í söng og hljóðfæraleik. Sópranhlutverkið var upphaflega ætlað karlkyns söngvara, geldingnum Venanzio Rauzzini, sem slegið hafði í gegn í hlutverki sínu í nýrri óperu Mozarts, Lucio Silla, sem frumsýnd hafði verið í glænýju óperuhúsi í Mílanó fyrr um veturinn, en hún fjallaði um atburði úr sögu Rómaveldis. Hinn ungi Mozart hafði sjálfur hrifist svo mjög af raddfegurð Rauzzinis og óviðjafnanlegri tækni að strax eftir frumflutning óperunnar tók hann til við að semja handa honum þessa miklu völundarsmíð sem rétt eins og helstu óperuperlur tónskáldsins býr yfir fögrum laglínum og krefjandi söngflúri - jafnvel kandensum þar sem söngvarinn fær tækifæri til að syngja frá eigin brjósti. Verkið er enn í dag með dáðustu æskuverkum Mozarts.