EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Hornkonsert nr. 4, 3. kafli, Rondo

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) samdi alls fjóra konserta fyrir horn og hljómsveit og voru þeir allir ætlaðir sama hornleikaranum, Joseph Leutgeb (1732-1811), sem var meðal fremstu hornleikara Austurríkis á sinni tíð og mikill vinur Mozart-fjölskyldunnar. Á þessum tíma var hornið enn vanþróað í samanburði við hljóðfæri nútímans. Á því voru engir takkar, svo erfitt var að ná úr því öðrum tónum en þeim sem fylgja hinni náttúrulegu yfirtónaröð. Snilld Lautgebs sem hornleikara fólst ekki síst í því hvernig hann gat töfrað fram alla tóna krómatíska tónstigans úr hljóðfærinu með því að stinga hendinni inn í bjölluna á enda hornsins þess og hreyfa hana þar til. Þessa hæfni einleikarans nýtir Mozart sér í ystu æsar og skrifar æsileg tónahlaup sem Leutgeb hefur eflaust þurft að hafa nokkuð fyrir - ekki síst í lokakaflanum sem hér er á efnisskrá. Hornið var í upphafi notað við veiðar í skógum Evrópu og er sú arfleifð nálæg í verkinu, enda nefndi Mozart konsertinn “Ein Waldhorn Konzert für den Lautgeb” eða “Skógarhornkonsert handa Lautgeb”. Í fyrri hornkonsertum Mozarts fyrir Lauteb ber nokkuð á stríðnislegum athugasemdum frá tónskáldinu og bröndurum á kostnað einleikarans í nótunum, en hér hefur Mozart tekið upp á því að skrifa hornpartinn út í fjórum mismunandi litum - sem segja má að sé vel við hæfi í svo litríkri og lifandi tónlist.