Hljóðfæraleikarar
Guðrún Hrund Harðardóttir
- Deild: Víóla
- Netfang: gudrunhrund ( @ ) yahoo ( . ) com
Guðrún Hrund Harðardóttir hóf ung fiðlunám og var nemandi Gígju Jóhannsdóttur í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Rutar Ingólfsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Á námstímanum í Tónó heillaðist hún af víólunni og lauk burtfararprófi á það hljóðfæri árið 1995 undir handleiðslu Helgu Þórarinsdóttur. Frá hausti 1995 var Guðrún nemandi Prof. Matthiasar Buchholz við Tónlistarháskólann í Köln og lauk þaðan Diplom-prófi í víóluleik sumarið 2000. Guðrún Hrund var búsett í Haag í Hollandi á árunum 2001 til 2009, þar sem hún einbeitti sér að flutningi tónlistar frá barokktímabilinu og hinu klassíska á upprunaleg hljóðfæri, en árið 2007 lauk hún námi frá hinni virtu barokkdeild Konunglega tónlistarháskólans í Haag, þar sem aðalkennarar hennar voru Elizabeth Wallfisch og Kati Debretzeni.
Guðrún er ein af stofnendum Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Haag, var um nokkurt skeið leiðandi víóluleikari The New Dutch Academy og Collegium Musicum Den Haag en auk þess hefur hún á síðastliðnum árum leikið inn á hljómdiska og ferðast með ýmsum evrópskum upprunasveitum, svo sem Anima eterna, Les Inventions og The Wallfish band.
Í ársbyrjun 2010 flutti Guðrún Hrund með fjölskyldu sína til Reykjavíkur og tók við starfi fastráðins víóluleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áður hafði Guðrún leikið með hljómsveitinni veturinn 2000-2001 og verið lausráðinn víóluleikari við S.Í. frá 1994. Guðrún Hrund er einnig víóluleikari strengjakvartettsins HUGO og Salonhljómsveitarinnar l’amour fou og hefur leikið með Bachsveitinni í Skálholti um árabil. Guðrún Hrund var meðlimur Íslenska strengjaoktettsins sem lék inná plötuna Homogenic með Björk árið 1997 og ferðaðist með henni um heiminn í kjölfarið. Guðrún Hrund leikur á víólu með Kammersveit Reykjavíkur og hefur jafnfræmt gegnt hlutverki framkvæmdarstjóra Kammersveitarinnar frá árinu 2010.