EN

Daníel Bjarnason

Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri og tónskáld, hefur verið staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2015. Daníel hefur gegnt margþættu hlutverki sem staðarlistamaður; hann hefur stjórnað fjölmörgum tónleikum og tónsmíðar hans hafa verið fluttar á tónleikum. Auk þess situr Daníel í verkefnavalsnefnd, stýrir tónskáldastofu og hljóðritunum með íslenskri tónlist. 

Daníel var listrænn stjórnandi Reykjavík Festival sem Fílharmóníuhljómsveitin í Los Angeles stóð fyrir í apríl 2017 og hlaut frábærar viðtökur. Þar stjórnaði hann m.a. tónleikum með nýrri íslenskri tónlist. Starfsárið 2017/18 mun Daníel einmitt stjórna LA/Reykjavík-tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk þess sem hann stjórnar tónleikum á Myrkum músíkdögum, hljóðritun fyrir bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus, og verkefninu Klassíkin okkar í samvinnu við RÚV og Íslensku óperuna.

Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri

Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Fílharmóníuhljómsveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitir Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká auk Hljómsveitar Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Hann hefur starfað með fjölmörgum stjórnendum svo sem Gustavo Dudamel, James Conlon og John Adams auk þess að eiga samstarf við ýmsar hljómsveitir á borð við Sigur Rós, Hjaltalín og Efterklang. Daníel stjórnaði vorið 2015 óperunni Peter Grimes eftir Britten, sem var samstarfsverkefni SÍ, Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík og hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir þátt sinn í verkefninu. Daníel hefur nýlokið við að semja óperuna Bræður, sem byggð er á samnefndri kvikmynd Susanne Bier. Verður hún frumsýnd í Árósum í ágúst 2017 í leikstjórn hins kunna danska óperuleikstjóra Kasper Holten sem nýverið lét af störfum sem óperustjóri Covent Garden-óperunnar í Lundúnum.  

Daníel Bjarnason lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2000. Sama ár hóf hann nám í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi í hvoru tveggja vorið 2003. Daníel stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi frá 2004-2007 og lauk þaðan prófi með hæstu einkunn.

Stefnt er að því að nýr staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitarinnar taki við starfinu á næsta ári og verður tilkynnt nánar um ráðninguna haustið 2017.