EN

Leila Josefowicz

Leila Josefowicz hefur verið í fremstu röð fiðluleikara
á heimsvísu í áratugi, en hún var undrabarn á hljóðfærið
og var farin að koma fram sem einleikari með helstu hljóm­sveitum heims fyrir tvítugt. Á fullorðinsárum hefur Josefo­wicz helgað sig nýrri tónlist öðru fremur og hefur starfað náið með helstu tónskáldum samtímans að frumflutningi nýrra verka. Má þar nefna John Adams, Thomas Adès, Esa­-Pekka Salonen, Oliver Knussen og Matthias Pintscher. Þannig hlaut Josefowicz hin virtu MacArthur­verðlaun árið 2008 fyrir „fyrir að auka við efnisskrá hljóðfæris síns og að heilla áheyrendur með því að tefla hinu framsækna og fjölbreytta á móti hinu hefðbundna.“ Á síðustu árum hefur Josefowicz komið fram með hljómsveitum á borð
við Fílharmóníusveit Berlínar, Tonhalle­-hljómsveitina í Zurich, Concertgebouw­-hljómsveitina í Amsterdam og sinfóníuhljómsveitirnar í Boston, San Fransisco, Cleve­ land og Fíladelfíu. Hún hefur gefið út fjölda hljóðritana undir merkjum Deutsche Grammophon, Philips og Warner. Hún kemur tvisvar fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á starfsárinu, auk þess sem hún leikur á einleikstón­leikum í föstudagsröðinni.