EN

Víkingur Heiðar Ólafsson

Staðarlistamaður

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur vakið heimsathygli á undanförnum árum fyrir framúrskarandi tónlistarhæfileika og framsýni í verkefnavali. Hann hefur hljóðritað fjórar plötur fyrir Deutsche Grammophon sem allar hafa hlotið frábærar viðtökur og hefur þeim samtals verið streymt yfir 260 milljón sinnum: Philip Glass Piano Works (2017), Johann Sebastian Bach (2018), Debussy / Rameau (2020) og Mozart & Contemporaries (2021). Dagblaðið The Daily Telegraph hefur kallað hann „hina nýju súperstjörnu klassíska píanóheimsins“ og The New York Times sagði hann vera „Glenn Gould Íslands“. Í febrúar síðastliðnum frumflutti hann nýjan píanókonsert Daníels Bjarnasonar með Fílharmóníusveit Los Angeles og hélt einleikstónleika í Carnegie Hall með tónlist eftir Mozart og samtímamenn hans.

Víkingur Heiðar hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna. Hann var valinn listamaður ársins hjá Gramophone-tímaritinu árið 2019 og hefur tvívegis hlotið Opus Klassik verðlaunin fyrir bestu einleiksplötu, auk verðlaunanna Plata ársins hjá BBC Music Magazine. Víkingur Heiðar hefur leikið einleik með mörgum helstu hljómsveitum heims og verið staðarlistamaður við tónlistarhús á borð við Konzerthaus í Berlín. Þá hefur hann deilt ástríðu sinni fyrir tónlist gegnum sjónvarps- og útvarpsþætti, og má þar nefna þættina Útúrdúr á RÚV, Píanógoðsagnir á Rás 1 og Front Row á BBC Radio 4 þar sem hann var staðarlistamaður um þriggja mánaða skeið.

Víkingur Heiðar er staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2021–22 og flytur þrjá nýja eða nýlega píanókonserta eftir Thomas Adès, Daníel Bjarnason og John Adams undir stjórn tónskáldanna sjálfra.