EN

Anna Þorvaldsdóttir

Anna Þorvaldsdóttir var útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands í byrjun árs 2018. 

Anna hefur skipað sér í fremstu röð tónskálda á heimsvísu undanfarin ár. Hún semur meðal annars stór sinfónísk verk fyrir helstu hljómsveitir heims, og hafa bæði Berlínarfílharmónían og Fílharmóníusveit New York-borgar frumflutt eftir hana tónverk á undanförnum árum. Anna hefur gegnt hlutverki staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018 en samstarf hennar við hljómsveitina spannar mun lengri tíma. Meðal annars samdi hún að beiðni hljómsveitarinnar verkið AERIALITY sem hljómaði fyrst árið 2011 og hefur heyrst víða um heim, meðal annars á nokkrum tónleikaferðalögum Sinfóníuhljómsveitarinnar á erlendri grund.

Einn af hápunktum starfsársins 2021–22 verður flutningur á AIŌN, hljómsveitar- og dansverki sem Anna samdi í samstarfi við Ernu Ómarsdóttur. Meðal þeirra verkefna sem Anna vinnur nú að fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands má nefna stórt sinfónískt verk, og METAXIS sem er rýmisverk í formi tónlistar-innsetningar, sérsniðið að hinum ýmsu rýmum Hörpu þar sem hljómsveitin verður dreifð í smærri hópum um rými hússins. Stefnt er að því að frumflytja METAXIS á Norrænum músíkdögum sem fara fram í Reykjavík haustið 2022.