EN

Tónleikaferð til Japans

#IcelandSymphonyInJapan

Sinfóníuhljómsveit Íslands ferðast nú um Japan og heldur samtals tólf tónleika í öllum helstu borgum landsins, m.a. í Tókýó, Osaka, Sapporo og Hamamatsu. Nær uppselt er á alla tónleika hljómsveitarinnar í Japan. Stjórnandi í ferðinni er Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann hefur notið gífurlegra vinsælda í Japan um áratugaskeið. Einleikari er japanski píanistinn Nobuyuki Tsujii (Nobu) sem er einn vinsælasti einleikari þar í landi. Tónleikahald er í höndum Avex Group sem stendur fyrir tónleikaferðinni.

Á efnisskrá hljómsveitarinnar verða Jökulljóð eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Karelía-svítan eftir Sibelius, píanókonsertar nr. 2 eftir Rakhmaínov og Chopin, og sinfóníur nr. 2 eftir Sibelius og Rakhmanínov. 

Skoða myndir úr Japansferðinni

Tónleikadagskrá í Japan 

3. nóv. »  Kawasaki  // Muza Kawasaki Symphony Hall 

4. nóv. »  Hamamatsu // Act City HamamatsuTest

6. nóv. »  Sapporo // Sapporo Community Plaza

8. nóv. »  Tokyo // Tokyo Opera City

9. nóv. »   Hiroshima // Bunka Gakuen HBG Hall

10. nóv. »  Fukuoka // Acros Fukuoka

11. nóv. »  Osaka // Festival Hall

13. nóv. »  Nagoya // NTK Hall, Forest Hall 

14. nóv. »  Okayama // Okayama Symphony Hall

16. nóv. »  Tokyo // Tokyo Metropolitan Theatre

17. nóv. »  Tokorozawa // Civic Culture Centre Muse

18. nóv. » Nagaoka // Nagaoka Lyric Hall

Lesa tónleikaskrá ferðarinnar

 

Vladimir Ashkenazy, hljómsveitarstjóri

Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er óumdeilanlega frægastur íslenskra ríkisborgara í klassíska tónlistarheiminum. Í ríflega hálfa öld hefur hann verið í hópi fremstu hljóðfæraleikara, eða allt frá því hann komst á verðlaunapall í þremur virtustu tónlistarkeppnum heims – Chopin-keppninni í Varsjá árið 1955, Queen Elisabeth-keppninni í Brüssel 1956 og Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu 1962.

Ashkenazy hefur hlotið sex Grammy-verðlaun, m.a. sem besti einleikari með hljómsveit (píanókonsertar Beethovens með Georg Solti, 1974), fyrir bestu kammerhljóðritun (fiðlusónötur Beethovens með Itzhak Perlman, 1979), og besta einleiksdisk (prelúdíur og fúgur Shostakovitsj, 2000).

Ashkenazys steig sín fyrstu skref sem hljómsveitarstjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1972. Síðan þá hefur hann verið aðalstjórnandi hjá virtum hljómsveitum á borð við Konunglegu fílharmóníusveitina í London, Tékknesku fílharmóníusveitina og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Sidney í Ástralíu, en hann hefur auk þess starfað með flestum frægustu hljómsveitum heims sem gestastjórnandi.

Ashkenazy var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í apríl 2018 fyrir framlag sitt til íslensks tónlistar- og menningarlífs.

Nobuyuki Tsujii, píanisti

Japanski píanistinn Nobuyuki Tsujii er stórstjarna í heimalandi sínu og það ekki að ósekju. Þessi 29 ára gamli snillingur hefur verið blindur frá fæðingu en lætur það ekki aftra sér og lærir jafnvel erfiðustu verk píanóbókmenntanna eftir heyrn.

Nobu, eins og hann er almennt kallaður, hóf píanónám fjögurra ára gamall og kom í fyrsta sinn fram með hljómsveit tíu ára. Hann hlaut gagnrýnenda-verðlaunin í Chopin-keppninni árið 2005, þá aðeins 17 ára, og hreppti gullverðlaun í Van Cliburn-píanókeppninni árið 2009. Sjálfur Van Cliburn lét hafa eftir sér um leik hans þar að hann hefði verið „alveg guðdómlegur“.

Nobu hefur komið fram í öllum helstu tónleikahöllum heims og leikið með fremstu hljómsveitum, m.a. undir stjórn Vladimirs Ashkenazy sem hefur verið dyggur stuðningsmaður hans um árabil. Mynddiskur með tónleikum Nobus í Carnegie Hall árið 2012 var valinn diskur mánaðarins hjá hinu virta tímariti Gramophone og hann hefur auk þess hljóðritað mikinn fjölda hljómdiska sem náð hafa metsölu í heimalandi hans.

Efnisskráin

Í Japan flytur hljómsveitin tvær ólíkar efnisskrár sem alls hafa að geyma sex verk. Fluttar verða sinfóníur nr. 2 eftir Rakhmanínov og Sibelius, píanókonsertar nr. 2 eftir Rakhmanínov og Chopin, auk þess sem hljómsveitin leikur Karelía-svítu eftir Sibelius og Jökulljóð eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Hér fyrir neðan má hlusta á tvö verk sem hljómsveitin flytur á tónleikaferðalaginu.

 

Jökulljóð eftir Þorkel Sigurbjörnsson undir stjórn Vladimirs Ashkenazy

 

Sinfónía nr. 2 eftir Jean Sibelius í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands