EN

Eva stjórnar upphafstónleikum

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
8. okt. 2020 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Í byrjun starfsársins 2019/20 tók finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen formlega við stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á efnisskrá upphafstónleikanna hefur hún valið þýska rómantík eftir meistarana Wagner og Strauss, undurfagran píanókonsert eftir Mozart, auk þess sem frumflutt verður á Íslandi nýlegt verk fyrir þrjá hljómsveitarstjóra eftir Daníel Bjarnason.

Forleikurinn að Tannhäuser er stórbrotinn inngangur að óperu Wagners um samnefnt söngvaskáld og togstreitu hins andlega og veraldlega í lífi og list. Tilþrifamikill píanókonsert Liszts er sannkallað eyrnakonfekt, og í hljómsveitarsvítu úr óperunni Rósarriddaranum hljómar innileg rómantík í bland við fjöruga Vínarvalsa.

Rússneski píanóleikarinn Denis Kozhukhin sló eftirminnilega í gegn þegar hann lék konsert nr. 2 eftir Prokofíev með Sinfóníuhljómsveitinni í febrúar 2019. „Einhver mesta flugeldasýning sem maður hefur upplifað“, fullyrti gagnrýnandi Fréttablaðsins, sem jafnframt lýsti yfir „stofnun aðdáendaklúbbs Kozhukhins á Íslandi“ af sama tilefni. Nú gefst tækifæri til að endurnýja kynnin af þessum frábæra píanóleikara.

Daníel Bjarnason samdi nýjasta hljómsveitarverk sitt fyrir aldarafmæli Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles og var það frumflutt þar við mikinn fögnuð í nóvember 2019. Daníel sækir innblástur í geimferðir sjöunda áratugarins og þá sýn sem blasir við þeim sem skoða jarðarkringluna utan úr geimnum. Verkið er ætlað þremur stjórnendum og ber hver ábyrgð á sínum hópi hljóðfæraleikara. Við frumflutninginn héldu um taumana núverandi og fyrrverandi aðalstjórnendur sveitarinnar í Los Angeles, þeir Gustavo Dudamel, Esa-Pekka Salonen og Zubin Mehta. Á tónleikunum í Eldborg mundar Daníel sjálfur tónsprotann ásamt Evu Ollikainen og Bjarna Frímanni Bjarnasyni.