EN

Ferð án fyrirheits – aflýst

Myrkir músíkdagar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
27. jan. 2022 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.800 – 4.800 kr.
  • Efnisskrá

    Áskell Másson Capriccio
    Haukur Tómasson It Relaxes Me, the Repetition, frumflutningur
    Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir Pons papilloma, frumflutningur
    Kjartan Ólafsson Mar – Ferð án fyrirheits, frumflutningur
    Sveinn Lúðvík Björnsson Glerhjallar, frumflutningur

  • Hljómsveitarstjóri

    Ville Matvejeff

  • Einleikarar

    Áskell Másson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Grímur Helgason og Sigrún Eðvaldsdóttir

Í ljósi mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar og hertra samkomutakmarkanna hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands ákveðið að aflýsa tónleikunum.

Fimm ný og spennandi íslensk hljómsveitarverk hljóma á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum.

Áskell Másson hefur um áratuga skeið verið meðal fremstu tónskálda þegar kemur að því að semja fyrir slagverkshljóðfæri. Capriccio er samið fyrir darabuka, sem er bikartromma ættuð frá Tyrklandi og Austurlöndum nær, en Áskell hefur á löngum ferli þróað ákveðna leiktækni á trommuna og bregður sér hér í hlutverk einleikarans. Þess má geta að í verkinu hljómar einnig annað óvenjulegt hljóðfæri, alúfónn, en Sinfóníuhljómsveit Íslands áskotnaðist nýverið slíkt hljóðfæri að gjöf.

Haukur Tómasson er löngu landskunnur fyrir tónsmíðar sínar og verk hans er meðal annars að finna á hljómdiskinum Concurrence sem tilnefndur var til Grammy- verðlauna nýverið. Nýtt hljómsveitarverk hans, It Relaxes Me, the Repetition, sækir innblástur í verk japönsku listakonunnar Yayoi Kusama, sem nýtur mikillar hylli fyrir litrík og þráhyggjukennd verk sín.

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir var valin bjartasta vonin í hópi sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020 og tónleikhúsverk hennar, Fuglabjargið, fékk frábærar viðtökur í Borgarleikhúsinu nýverið. Nýtt verk hennar, Pons papilloma, er samið að beiðni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og segir hún að það sé „úrvinnsla og kortlagning af áfalli“.

Nýtt hljómsveitarverk frá Sveini Lúðvík Björnssyni sætir tíðindum, en íhugul tónlist hans hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar Sinfóníuhljómsveitin flutti klarínettkonsert hans árið 2014 sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins að útkoman hafi verið seiðandi og unaðsleg, og að verkið væri „einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á“.

Nýtt hljómsveitarverk Kjartans Ólafssonar er tileinkað minningu finnska tónskáldsins Einojuhani Rautavaara. Um tónsprotann heldur finnski hljómsveitarstjórinn og tónskáldið Ville Matvejeff, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Jyväskylä.