EN

Grímur og Schubert

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
28. maí 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Tveir meistarar snemmrómantíkur, Schubert og Weber, eiga verk á fyrri hluta þessara spennandi tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þriðja sinfónía Schuberts er æskuverk, samin þegar hann var nýorðin átján ára, en sýnir meistaraleg tök undrabarnsins á hinu sinfóníska formi. Víða má greina áhrif Rossinis, en ítalska óperuskáldið hafði þá nýverið lagt Vínarborg að fótum sér. Aðeins fjórum árum eldra verk er klarínettkonsert nr. 1 eftir Carl Maria von Weber, einn eftirminnilegasti konsert fyrir blásturshljóðfæri frá 19. öld.

Grímur Helgason klarínettleikari hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár, hvort heldur er í hlutverki sínu sem klarínettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands eða sem einleikari. Hann býr yfir óvenju víðfeðmum tónlistargáfum og er jafnvígur á klassík, popp, djass og dixieland. Grímur lauk framhaldsnámi frá Tónlistarháskólanum í Amsterdam og hefur síðan leikið með ýmsum tónlistarhópum, meðal annars Caput, Hjaltalín og sígauna-djasshljómsveitinni Hrafnaspark.

Thomas Larcher er eitt virtasta samtímatónskáld Austurríkis og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Hann var staðartónskáld í Concertgebouw í Amsterdam tónleikaárið 2019–20 og í fyrra hlaut hann æðstu listaverðlaun listamanna í heimalandi sínu, Austurrísku þjóðarverðlaunin, en þau eru árlega veitt einum framúrskarandi listamanni. Sinfónía hans nr. 2, Kenotaph (Stríðsminnisvarði), er metnaðarfyllsta hljómsveitarverk hans, samið til minningar um flóttamenn sem drukknað hafa undanfarin ár í Miðjarðarhafi. Það var frumflutt af Fílharmóníusveit Vínarborgar árið 2016. Frumflutningur þess á Íslandi er ómissandi fyrir þá sem vilja kynnast merkri rödd í nýjum sinfónískum tónsmíðum á heimsvísu.