EN

HAM/Reykjavíkurdætur & Sinfó

Í samstarfi við Iceland Airwaves

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
7. nóv. 2024 » 19:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 5.990 - 18.990 kr.
Kaupa miða
 • Hljómsveitarstjóri

  Keith Lockhart

 • Sinfóníuhljómsveit Íslands
  HAM
  Reykjavíkurdætur

 • PARTNER EVENT Á ICELAND AIRWAVES

  Afsláttur fyrir Iceland Airwaves miðahafa og áskrifendur Sinfóníuhljómsveitar Íslands í miðasölu Hörpu.

Þetta er tveir-fyrir-einn viðburðurinn sem við höfum beðið eftir! Sinfóníuhljómsveit Íslands byrjar kvöldið með Reykjavíkurdætrum og endar það með HAM sem munu hrista vel upp í Eldborg. Við getum ekki beðið eftir að sjá Sinfó bæta sinni einstöku tign við tónlist þeirra!

HAM
Dramatískur hljóðheimur HAM hefur alltaf vakið sterk viðbrögð. Einkenni HAM eru háværir tónleikar, miskunnarlausar lagasmíðar og ögrandi textar.
HAM starfaði af miklum krafti á árunum 1988-1994 og má segja að kertið hafi verið brennt frá öllum endum. Árið 2001 kom HAM svo aftur saman til að endurvekja þungan hljóðheim sinn. Frá árinu 2006 hefur sveitin starfað af nokkrum þunga, spilað reglulega og gefið út nýtt efni.

Tónlist HAM er tímalaus og dramatísk. Hljómasúpur og tónskrattar kallast á og staflast upp hljóma á óma ofan. Tónlistin er hávær, harkaleg og ómþýð í senn. Yrkisefnin eru þjóðleg, harmþrungin og grunnmannleg. Það hefur verið haft á orði að máske sé HAM þjóðlegust íslenskra hljómsveita. Að verk hennar endurspegli íslenska kletta og svarrandi brim. Textar kafi ofan í dramatík mannlífsins og baráttu við náttúruna.

HAM er einstakt fyrirbæri í íslenskri tónlist. Um leið er alþekkt og algilt að við erum öll HAM.

REYKJAVÍKURDÆTUR
Hljómsveitin Reykjavíkurdætur kom eins og stormsveipur inn í íslenskt menningarlíf fyrir um áratug og vakti strax mikla athygli fyrir hispurslausa texta, óheflaða framkomu og sérstöðu sína sem hópur kvenna í íslenskri rappsenu. Frá árinu 2013 hefur hljómsveitin komið fram í yfir 20 löndum, spilað á öllum helstu hátíðum og viðburðum hérlendis og unnið til virtra verðlauna á borð við MME verðlaunin sem Evrópusambandið veitir og viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.

Hljómsveitin hefur síðustu misserin stefnt fleyi sínu á erlend mið en stimplaði sig rækilega inn að nýju í íslenskt tónlistarlíf með þátttöku sinni í Söngvakeppninni 2022. Reykjavíkurdætur hafa tekið stakkaskiptum í gegnum árin og telur hljómsveitin í dag átta meðlimi en það eru þær Blær, Karítas, Ragga, Salka, Steiney, Steinunn, Þórdís Björk og Þura Stína

Dæturnar hafa á sínum starfsferli, gefið út þrjár plötur og fjölda smáskífa auk þess sem þær hafa staðið fyrir námskeiðum í textasmíð og rappi fyrir börn og haldið fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis.