EN

Alban Gerhardt

Sellóleikari

Alban Gerhardt er fæddur inn í mikla tónlistarfjölskyldu. Móðir hans var sópransöngkona og faðir hans, Axel Gerhardt, lék á fiðlu með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar í meira en 40 ár. Sjálfur hóf Alban sellónám átta ára gamall og meðal kennarar hans voru tveir meðlimir Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Berlín, Marion Vetter og Götz Teutsch, auk þess sem hann sótti tíma hjá Boris Pergamenschikov. Gerhardt lék í fyrsta sinn með Berlínarfílharmóníunni árið 1991 og hreppti um svipað leyti fyrstu verðlaun í Þýsku tónlistarkeppninni í Bonn, ARD-keppninni, og Leonard Rose-keppninni.

Gerhardt hefur komið fram með fjölda virtra hljómsveita, til dæmis Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, Fílharmóníuhljómsveit Lundúna, og hljómsveitunum í Cleveland, Chicago og Philadelphiu með stjórnendum á borð við Kurt Masur, Christoph von Dohnányi, Christian Thielemann, Esa-Pekka Salonen, Vladimir Jurowski, Kirill Petrenko og Andris Nelsons. Hann frumflutti sellókonsert eftir Unsuk Chin á Proms-tónlistarhátíðinni árið 2009 og hljóðritaði verkið í kjölfarið fyrir Deutsche Grammophon. Hann hefur einnig starfað náið með öðrum tónskáldum, t.d. Brett Dean, Jörg Widmann og Matthias Pintscher. Gerhardt hefur unnið til þriggja ECHO Klassik-verðlauna auk þess sem hljóðritun hans á sellókonserti Unsuk Chin vann BBC Music Magazine-verðlaunin 2015 og var tilnefnd til Gramophone-verðlaunanna. Hann hefur hljóðritað fjölda geisladiska fyrir Hyperion og Chandos.

Meðal hápunkta þessa starfsárs eru frumflutningur á nýjum sellókonsert eftir Brett Dean með Sinfóníuhljómsveitinni í Sidney og síðar með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar auk tónleika í Konzerthaus í Berlín og Wigmore Hall í Lundúnum.

Alban Gerhardt leikur á selló eftir feneyska fiðlu- og sellósmiðinn Matteo Goffriller, smíðað árið 1710.