EN

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir

Sópransöngkona

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún stundar mastersnám í Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín, eftir að hafa lokið bakkalárnámi þaðan með hæstu einkunn vorið 2018.

Álfheiði Erlu var boðið að taka þátt í SongStudio á vegum söngkonunnar Renée Fleming í Carnegie Hall í janúar 2019. SongStudio er meistaranámskeið sem hannað var til þess að kanna nýjar leiðir í framsetningu og flutningi ljóðasöngs. Álfheiður Erla mun koma fram á einsöngstónleikum í Carnegie Hall Citywide tónleikaseríunni í maí 2020 ásamt píanóleikaranum Kunal Lahiry.

Álfheiður Erla hefur unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Alondra de la Parra, Daníeli Bjarnasyni og Fabio Biondi. Hún þreytti frumraun sína í Staatsoper Berlín í titilhlutverki óperunnar Schneewitthen (Wolfgang Mitterer) í mars 2019. Að auki fór hún með hlutverk Papagenu í Töfraflautu Mozarts í september 2019 í Staatsoper Berlín. Hún kom einnig fram sem einsöngvari í verkinu La Vergine Addolorata eftir Scarlatti á barokkdögum Staatsoper Berlín í nóvember 2019.

Álfheiður hefur m. a. farið með hlutverk Louise í „Tolleranzia“ (frumflutningur 2019) eftir Alex Chorny í Deutsche Oper Tischlerei, Poppeu í „L’incoronazione die Poppea“ í Freiraum Berlin, Hannchen í „Vetter aus Dingsda“ í Theater Altenburg Gera, Súsönnu í „Le nozze di Figaro“ í Uferstudios Berlin, Marzellinu í „Fidelio“ í Liszt Akademíunni í Búdapest, Flaminiu í „Il mondo della luna“ í HfM Berlin, Poppeu í „Agrippina“ í Radialsystem Berlin, svo fátt eitt sé nefnt. Álfheiður Erla var valin í Thüringer óperustúdíóið 2019/2020.

Álfheiður Erla hlaut nafnbótina „Britten-Pears Young Artist“ og hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum m. a. hjá Anne Sofie von Otter, Véronique Gens, Susan Manoff, Piotr Beczala, Matthew Rose, Hartmut Höll og Emma Kirkby. Hún var einnig þáttakandi í hinni virtu Academy Orsay-Royaumont ásamt píanóleikaranum Elenora Pertz í nóvember 2019. Academy Orsay-Royaumont var hönnuð til að styðja við nýja kynslóð söngvara og píanóleikara og á sama tíma kanna samspil tónlistar og sjónlistar.
Álfheiður Erla hreppti önnur verðlaun og verðlaun fyrir bestan ljóðaflutning í alþjóðlegu Haydn söngkeppninni sumarið 2019. Árið 2015 hreppti hún þriðju verðlaun og verðlaun fyrir bestan flutning á aríu í alþjóðlegu Perotti söngkepninni.

Álfheiður kemur reglulega fram á tónleikum á Íslandi og í Þýskalandi og hefur lagt mikla áherslu á flutning þýskra og norrænna ljóðasöngva frá rómantíska tímabilinu. Á undanförnum árum hefur Álfheiður komið reglulega fram sem einsöngvari í ýmsum verkum, til dæmis í Messíasi (G. F. Händel), Jóhannesarpassíunni (J. S. Bach), Grabmusik (W. A. Mozart) og Donnerode (G. P. Thelemann).

Álfheiður Erla er styrkþegi Deutschlandstipendium, Freunde junger Musiker Berlin, Live Music Now „Yehudi Menuhin“, Ingjaldssjóðs og tónlistarsjóðs Rótarý.