EN

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir

Sópransöngkona

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir stundaði söngnám í Söngskóla Sigurðar Demetz og í Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín, þaðan sem hún lauk bakkalár- og meistaranámi. Hún þreytti frumraun sína í Staatsoper Berlin árið 2019 í hlutverki Mjallhvítar í óperunni Schneewittchen eftir Wolfgang Mitterer og var boðið að taka þátt í SongStudio, meistaranámskeiði á vegum söngkonunnar Renée Fleming í Carnegie Hall í New York sama ár. Hún er einnig Britten-Pears Young Artist, hefur tekið þátt í Academy Orsay-Royaumont í Frakklandi og hreppti tvenn verðlaun í alþjóðlegu Haydn söngkeppninni í Austurríki. 

Álfheiður Erla kom fram á Aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í desember 2020, en tónleikunum var sjónvarpað í beinni dagskrá á RÚV. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2021 sem söngkona ársins í flokknum sígild og samtímatónlist og var valin í 16 manna úrslit BBC Cardiff söngkeppninnar sama ár.

Álfheiður Erla hefur verið fastráðin við Theater Basel í Sviss frá haustinu 2021. Þar hefur hún farið með ýmis hlutverk, meðal annars Gildu í Rigoletto eftir Verdi, sópranhlutverkið í Mattheusarpassíunni eftir Bach og Einstein on the Beach eftir Philip Glass og engilinn í St. François d'Assise eftir Messiaen.

Nýlega kom út platan Poems hjá Deutsche Grammophon, en platan inniheldur verk sem Álfheiður söng og samdi ásamt tónskáldinu Viktori Orra Árnasyni við ljóð ýmissa íslenskra ljóðskálda. Álfheiður söng og samdi sömuleiðis rework sem ber nafnið Notturno fyrir píanóleikarann Víking Heiðar Ólafsson sem einnig var gefið út af Deutsche Grammophon.

Álfheiður Erla starfar að auki sem ljósmyndari og sameinar gjarnan sjón- og tónlist í verkum sínum. Árið 2022 sá Álfheiður um listræna stjórn og söng á viðburðinum Apparition ásamt píanóleikaranum Kunal Lahiry í Eldborgarsal Hörpu, þar sem tón-, dans- og sjónlistir tvinnuðust saman en viðburðurinn var tilnefndur sem tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.