EN

Alina Ibragimova

Fiðluleikari

 

Alina Ibragimova er fædd í Rússlandi árið 1985 og af tónlistarfólki komin. Hún hóf fiðlunám fjögurra ára gömul og ári síðar hlaut hún inngöngu í Gnessin-tónlistarskólann í Moskvu. Þegar hún var 10 ára gömul hlaut faðir hennar, sem er kontrabassaleikari, stöðu hjá Sinfóníuhljómsveit Lundúna, og fjölskyldan flutti þangað. Hún hóf þá nám við Yehudi Menuhin-skólann, þar sem móðir hennar er einn kennara. 

Ibragimova lék tvíkonsert Bachs ásamt Nicola Benedetti árið 1998, undir stjórn Menuhins, sem lést þremur mánuðum síðar. Ibragimova var einnig valin til að leika við útför Menuhins sem gerð var frá Westminster Abbey. Hún sigraði í ýmsum tónlistarkeppnum og hefur um árabil leikið með helstu hljómsveitum heims, m.a. Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, hljómsveitinni Fílharmóníu, Birmingham-sinfóníunni og BBC-sinfóníunni, m.a. undir stjórn Valeríjs Gergíevs, Sir John Eliot Gardiner og Osmo Vänskä. Hún hefur haldið einleikstónleika m.a. í Wigmore Hall, Carnegie Hall, Concertgebouw í Amsterdam og Musikverein í Vínarborg. Hún lék allar sónötur Beethovens í Wigmore Hall tónleikaárið 2009/10, og árið 2015 lék hún allar sónötur og partítur Bachs á Proms-tónlistarhátíð Breska útvarpsins. Hún hefur leikið inn á fjölda hljómdiska fyrir Hyperion-útgáfuna og hlaut MBE-orðu Elísabetar Bretadrottningar á nýársdag 2016 fyrir störf að tónlistarmálum.