Andrew Manze
Hljómsveitarstjóri
Englendingurinn Andrew Manze er einn af helstu hljómsveitarstjórum sinnar kynslóðar, annálaður fyrir smitandi orku á stjórnandapallinum og yfirgripsmikla þekkingu sína á tónbókmenntunum. Hann var aðalhljómsveitarstjóri NDR útvarpshljómsveitarinnar í Hannover á árunum 2014–23 og stýrði þar áður Sinfóníuhljómsveit Helsingborgar í tæpan áratug. Hann er nú aðalgestastjórnandi Konunglegu fílharmóníusveitarinnar í Liverpool en hefur auk þess starfað með ýmsum helstu hljómsveitum austan hafs og vestan, svo sem Þýsku sinfóníuhjómsveitinni í Berlín, Fílharmóníusveit Münchenar, Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi, Finnsku útvarpshljómsveitinni, Fílharmóníusveit Óslóar, Concertgebouw-hljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveitinni í Boston og Fílharmóníusveitinni í Los Angeles. Í sumar mun hann stjórna tvennum tónleikum með verkum eftir Mozart á tónlistarhátíðinni í Salzburg.
Eftir nám í klassískum fræðum við Cambridge-háskóla snéri Manze sér að fiðluleik og varð á skömmum tíma leiðandi á sviði upprunaflutnings tónlistar, meðal annars sem listrænn stjórnandi The English Concert á árunum 2003–2007. Hann hefur unnið að nýjum útgáfum verka eftir Bach og Mozart fyrir forlögin Bärenreiter og Breitkopf & Härtel auk þess sem hann heldur fyrirlestra víða og og kemur reglulega fram í útvarpi og sjónvarpi. Manze sótti Ísland fyrst heim árið 1998 og lék þá á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Hann snéri aftur haustið 2013 til þess að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg og kemur nú fram með hljómsveitinni í annað sinn.