EN

Anu Komsi

Einsöngvari

Finnska sópransöngkonan Anu Komsi þykir ein fremsta óperusöngkona Finna um þessar mundir og er eftirsótt kólóratúr-söngkona á heimsvísu. Verkaskrá hennar er breið og víðfeðm og spannar tónlist endurreisnar og til okkar tíma. Hún nam söng við Síbelíusarakademíuna en hafði áður numið fiðlu- og flautuleik og hóf ferilinn raunar sem hljóðfæraleikari í Kammersveitinni í Austurbotni. Sú reynsla varð meðal annars til þess að tendra ástríðu hennar fyrir samtímatónlist og tónlist frá seinni hluta 20. aldar sem Komsi hefur lagt sérstaka rækt við. Má þar nefna verk úr smiðjum Schnittke, Ligeti, Kurtág, John Zorn, Duke Ellington, Morton Feldman og Karlheinz Stockhausen. Anu Komsi fór ein með sópranhlutverkið í óperu Stockhausen, Donnerstag aus Licht, þegar hún var sett upp í Basel árið 2016 og braut þar með blað í flutningssögu óperunnar sem er sex tíma löng en sópranhlutverkinu hafði fram til þess tíma verið skipt á milli nokkurra söngkvenna sökum lengdar óperunnar.

Komsi hefur pantað og frumflutt fjölda nýrra verka, má þar nefna tónsmíðar eftir Unsuk Chin, Christian Mason og Kaiju Saariaho.  Sir George Benjamin skrifaði sópranhlutverkið í kammeróperu sinni Into the Little Hill sérstaklega fyrir Komsi sem hefur tekið þátt í flutningi hennar víða um heim. Fyrir framlag sitt og frumkvæði á sviði samtímatónlistar hefur Komsi hlotið verðlaun og viðurkenningar svo sem Madetoja-verðlaun finnska tónskáldafélagsins árið 2020 og verðlaun kennd við finnska tónskáldið Erik Bergman árið 2021.

Anu Komsi hefur komið fram með fremstu hljómsveitum heims á borð við Fílharmóníusveitirnar í Berlín, Vínarborg og New York og túlkað um sjötíu óperuhlutverk í mörgum af virtustu óperuhúsum veraldar. Hún hefur sungið inn á hundruð hljóðrita sem hafa mörg hver hlotið frábærar viðtökur og verðlaun.  Árið 2021 var hún tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Þetta er í fyrsta sinn sem Komsi stígur á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún hefur áður sungið undir stjórn Evu Ollikainen, með Fílharmóníusveitinni í Turku fyrir tæpu ári þar sem tónaljóð Sibeliusar, Luonnatar, var á meðal verka á efnisskrá.