Ari Þór Vilhjálmsson
Fiðluleikari
Ari Þór Vilhjálmsson er búsettur í Tel Aviv þar sem hann starfar sem leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Ísrael. Hann fæddist í Reykjavík árið 1981 og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum þar sem helstu kennarar hans voru Almita og Roland Vamos, Rachel Barton Pine og Sigurbjörn Bernharðsson.
Ari starfaði við Sinfóníuhljómsveit Íslands á árunum 2006 - 2015 en flutti þá til Finnlands og tók við leiðarastöðu í Fílharmóníusveitinni í Helsinki. Ari hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum í Bandaríkjunum, Finnlandi og á Íslandi. Hann hefur dálæti á kammertónlist og spilar hana reglulega, m.a. með tónlistarhópum sem hann hefur átt þátt í að stofna; Helsinki Chamber Soloists og Montefiore Ensamble í Tel Aviv.
Ari hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík, Sibeliusarakademíuna og nú við Háskólann í Tel Aviv. Hann er framkvæmdastjóri og kennari við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu (HIMA) sem hefur verið haldin árlega síðan 2013.
Ari Þór er í þann mund að taka við listrænum taumum og formennsku nýrrar stjórnar Kammermúsíkklúbbsins. Í sumar verður hann einn af 70 listamönnum sem koma fram á alþjóðlegu kammertónlistarhátíðinni í Kuhmo í Finnlandi, sem er ein af stærstu kammertónlistarhátíðum Evrópu.
Ari hefur áður leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tvíkonsert Brahms, þríkonsert Beethovens, Poéme eftir Chausson og í fiðlukonsertum eftir Hafliða Hallgrímsson, Shostakovich, Tchaikovsky, Saint-Saens og Mozart.