EN

Ari Þór Vilhjálmsson

Fiðluleikari

Ari Þór Vilhjálmsson er búsettur í Tel Aviv þar sem hann starfar sem leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Ísrael. Hann fæddist í Reykjavík árið 1981 og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum þar sem helstu kennarar hans voru Almita og Roland Vamos, Rachel Barton Pine og Sigurbjörn Bernharðsson.
Ari starfaði við Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) á árunum 2006 - 2015 en flutti þá til Finnlands og tók við leiðarastöðu í Fílharmóníusveitinni í Helsinki. Hann hefur einnig verið gestakonsertmeistari við sinfóníuhljómsveitir í Stokkhólmi og í Toulouse. Ari hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum í Bandaríkjunum, Finnlandi og á Íslandi og er þetta í 9. sinn sem hann leikur einleik með SÍ. Hann hefur dálæti á kammertónlist og spilar hana reglulega, m.a. með tónlistarhópum sem hann hefur átt þátt í að stofna; Helsinki Chamber Soloists og White City Ensemble í Tel Aviv.
Ari hefur mikinn áhuga á kennslu og hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík, Sibeliusarakademíuna og nú við Háskólann í Tel Aviv. Margir af fyrrum nemendum hans á Íslandi eru nú að stíga sín fyrstu spor sem ungir atvinnutónlistarmenn. Hann ræktar tengslin við tónlistarnemendur á Íslandi sem framkvæmdastjóri og kennari við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu (HIMA) sem hefur verið haldin árlega síðan 2013.
Ari spilar á eigin fiðlu sem smíðuð var af Jean-Baptiste Villaume í París árið 1830