EN

Ari Þór Vilhjálmsson

Fiðluleikari

Ari Þór Vilhjálmsson er fastráðinn sem leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki. Um þessar mundir er hann í ársleyfi frá hljómsveitinni og starfar sem leiðari 2. fiðlu í Fílharmóníusveit Ísraels í Tel Aviv.

Ari fæddist í Reykjavík árið 1981 og starfaði um árabil við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur einnig verið gestakonsertmeistari við fílharmóníusveitirnar í Helsinki og Stokkhólmi og Orchestre National du Capitole de Toulouse.

Í desember 2018 var Ari einleikari í fiðlukonsert Jaakko Kuusisto með hljómsveitinni sinni í Helsinki en þetta er í 8. sinn sem hann kemur fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið á fjölda einleiks- og kammertónleika. Undanfarin ár hefur hann spilað árlega á Reykholtshátíð og á tónleikaröðum Kammermúsikklúbbsins og Reykjavík Classics í Hörpu.

Á árunum 2008–2014 kenndi Ari við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Margir af fyrrverandi nemendum hans stunda nú nám við erlenda tónlistarháskóla. Ari er einn af stofnendum og jafnframt framkvæmdastjóri Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu sem heldur námskeið fyrir tónlistarnema á hverju sumri. Hann hefur kennt í afleysingum við Sibeliusarakademíuna og sinnir áfram nemendum í Helsinki með fjarkennslu.

Ari hóf að læra á fiðlu 5 ára gamall samkvæmt Suzuki aðferðinni. Hann nam við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarskólann í Reykjavík, University of Illinois, New England Conservatory og Northwestern University. Helstu kennarar hans voru Mary Campbell, Guðný Guðmundsdóttir, Rachel Barton, Sigurbjörn Bernharðsson og hjónin Almita og Roland Vamos.

Ari spilar á eigin fiðlu sem smíðuð var af Jean-Baptiste Villaume í París árið 1830.