EN

Barbara Hannigan

Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan er einkar skapandi listamaður sem gæðir tónlistina lífi með óviðjafnanlegri tilfinningu fyrir hinu dramatíska. Hún hefur lagt sérstaka rækt við samtímatónlist og frumflutt yfir 90 ný verk. Í hópi samverkamanna hennar á 30 ára ferli eru Reinbert de Leeuw, Pierre Boulez, Sasha Waltz, John Zorn, Krszysztof Warlikowski, Simon Rattle, Katie Mitchell, Henri Dutilleux, Vladimir Jurowski, György Ligeti, Kirill Petrenko, George Benjamin, Andreas Kriegenburg og Hans Abrahamsen.

Barbara Hannigan er aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar og Kammersveitarinnar í Lausanne og hún er gestalistamaður hjá Fílharmóníusveit franska útvarpsins og Sinfóníuhljómsveit Lundúna. Þá gegnir hún prófessorsstöðu sem kennd er við Reinbert de Leeuw í Royal Academy of Music í Lundúnum. Barbara hefur gefið út sex plötur hjá Alpha Classics útgáfunni, nú síðast Infinite Voyage (2023). Hún hlaut Grammyverðlaunin fyrir plötuna Crazy Girl Crazy (2017). Barbara leggur rækt við nýjar kynslóðir tónlistarmanna gegnum verkefnin Equilibrium Young Artists, sem var stofnað 2017, og Momentum: our future, now, stofnað 2020. Hún býr í Finistère á norðvesturströnd Frakklands, gegnt æskuslóðum sínum hinum megin Atlantshafsins, Waverley í Nova Scotia.

Þetta er í þriðja sinn sem Barbara sækir Sinfóníuhljómsveit Íslands heim. Hún kom hingað fyrst á Listahátíð 2022 og töfraði áheyrendur með túlkun sinni á verkum eftir Berg, Schönberg, Ives og Gershwin. Hún snéri svo aftur í júní síðastliðnum og stjórnaði þá m.a. fjórðu sinfóníu Mahlers bæði hér í Eldborg og í Hofi á Akureyri.