Barbara Hannigan
Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan hefur vakið feikilega aðdáun um heim allan undanfarin ár fyrir stórfenglegan söng og hrífandi hljómsveitarstjórn en einnig framsækni og listfengi í verkefnavali. Hún hefur starfað með öllum helstu hljómsveitum heims og kemur reglulega fram með listamönnum á borð við Sir Simon Rattle, Sasha Waltz, Kent Nagano, Vladimir Jurowski og John Zorn. Hún er einstaklega ötull sendiboði nýrrar tónlistar, bæði sem söngkona og hljómsveitarstjóri, hefur frumflutt yfir 85 ný tónverk og starfað náið með tónskáldum á borð við Pierre Boulez, Henri Dutilleux, György Ligeti, Karlheinz Stockhausen, Brett Dean, George Benjamin og Hans Abrahamsen.
Barbara Hannigan hefur sungið í helstu óperuhúsum heims. Meðal nýlegra sigra hennar á óperusviðinu er hið krefjandi titilhlutverk í Lulu eftir Alban Berg í uppsetningum í La Monnaie í Brussel og Staatsoper í Hamborg, hlutverk Mélisande í Pelléas og Mélisande eftir Claude Debussy á Aix-en-Province-hátíðinni 2016 og aftur 2017 í uppsetningu Krszysztofs Warlikowskis á Ruhr-þríæringnum, auk hlutverks Maríu í óperu Bernd Aloys Zimmermann, Hermönnunum eða Die Soldaten, í Bayerische Staatsoper en fyrir þann flutning hlaut hún hin þýsku Faust-verðlaun.
Barbara Hannigan hefur mætt áskorunum heimsfaraldursins af miklum sköpunarkrafti, til að mynda með kvikmyndaðri uppsetningu á Mannsröddinni, La Voix Humaine, óperu Francis Poulenc fyrir sópran og hljómsveit, þar sem Hannigan bæði syngur og stjórnar. Uppsetningin var unnin með vídeólistamanninum Denis Guéguin og var hluti af starfi Hannigan sem staðarlistamanns hjá Fílharmóníusveit franska útvarpsins. Þá hefur Hannigan þrátt fyrir takmarkanir á tónleikahaldi náð að koma fram með Sinfóníuhljóm- sveit Lundúna (LSO), Dönsku útvarpshljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar (þar sem hún gegnir stöðu aðalgestastjórnanda) og Fílharmóníusveitinni í München svo eitthvað sé nefnt.
Barbara Hannigan hefur hlotið ótal verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018, en það var fyrsta hljóðritunin sem hún gaf út sem bæði söngvari og hljómsveitarstjóri, og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020. Þegar Rolf Schock-verðlaunin féllu henni í skaut 2018 rökstuddi dómnefndin ákvörðun sína með þeim orðum að Hannigan væri „einstakur og framsækinn flytjandi sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti.“