EN

Benjamin Beilman

Fiðluleikari

Benjamin Beilman er fæddur í Bandaríkjunum árið 1989. Hann hefur hlotið frábæra dóma fyrir túlkun sína, meðal annars í New York Times og Strad-tímaritinu, sem kallaði flutning hans „hreina ljóðrænu“. Beilman hefur undanfarið komið fram sem einleikari með sinfóníuhljómsveitunum í Detroit, Houston, Orgeon og Indianapolis, auk þess að leika með sinfóníuhljómsveitinni í Sidney í Ástralíu og Skosku kammersveitinni. Hann hefur einnig haldið einleikstónleika meðal annars í Carnegie Hall og Lincoln Center í New York, Kennedy Center í Washington D.C. og Wigmore Hall í Lundúnum.

Beilman hefur einnig leikið einleik og stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Vancouver, og lék nýverið í fyrsta sinn í Fílharmóníunni í Köln ásamt Ensemble Resonanz. Þá hefur hann leikið með Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham og flutt Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi undir stjórn Richards Egarr.

Beilman hóf fiðlunám fimm ára gamall og hélt áfram námi hjá Almitu og Roland Vamos í Chicago, og nam síðar við Curtis Institute í Philadelphiu. Beilman hreppti fyrstu verðlaun í Young Concert Artists keppninni árið 2010 og í framhaldi af því fór ferill hans á flug. Hann hlaut Avery Fisher-verðlaunin og plötusamning hjá Warner Classics. Beilman leikur á „Engleman“-Stradivarius fiðluna sem smíðuð var árið 1709.