EN

Camilla Nylund

Einsöngvari

Sópransöngkonan Camilla Nylund hefur um árabil verið ein fremsta sópransöngkona Norðurlanda. Hún fæddist í Vaasa í Finnlandi og lærði við tónlistarháskólann í Turku og síðar við Mozarteum-tónlistarháskólann í Salzburg. Hún hefur sungið við öll helstu óperuhús og tónlistarhátíðir heims, meðal annars í Vínarborg, París, Berlín, Dresden, Barcelona, Lundúnum, Mílanó og Bayreuth. Árið 2008 debúteraði hún sem Rusalka í óperu Dvořáks á Salzburgarhátíðinni undir stjórn Franz Welser-Möst. Hún söng Salóme í samnefndri óperu Richards Strauss við Bastillu-óperuna í París árið 2009 og Elísabetu í Tannhäuser eftir Wagner í Bayreuth árið 2011. Þá hefur hún sungið Leónóru í Fidelio eftir Beethoven við Theater an der Wien og á tónleikaferð um Japan undir stjórn Sir Simon Rattle.

Nylund er ekki síst dáð fyrir túlkun sína á hlutverkum í óperum Richards Strauss. Hún hefur sungið leiðandi hlutverk í Arabella, Salome, Elektra, Die Frau ohne Schatten og Rósarriddaranum, meðal annars við Teatro alla Scala, Staatsoper í Vínarborg, Ríkisóperu Bæjaralands og Semperoper í Dresden. Þá hefur hún sungið Níundu sinfóníu Beethovens með Fílharmóníusveit Berlínar undir stjórn Simon Rattle og einnig með hljómsveit Scala-óperunnar undir stjórn Daniels Barenboim.

Nylund hefur sungið inn á meira en 30 geisladiska, meðal annars hjá Sony Classical. Hún syngur meðal annars í Sinfóníu nr. 8 eftir Gustav Mahler með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam undir stjórn Mariss Jansons, og hlutverk Leónóru í hljóðritun á Fidelio með Útvarpshljómsveit Vínarborgar undir stjórn Bertrands de Billy, aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nylund hlaut Sænsku menningarverðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarinnar og Pro Finlandia orðuna sem veitt er framúrskarandi finnskum listamönnum.