EN

Daniel Raiskin

Hljómsveitarstjóri

Daniel Raiskin hóf tónlistarnám á heimaslóðum í Sankti Pétursborg sex ára gamall og stundaði síðan framhaldsnám í víóluleik og hljómsveitarstjórn við tónlistarháskóla borgarinnar. Á þeim árum sótti hann einnig tíma hjá Mariss Jansons, Neeme Järvi, Milan Horvat, Woldemar Nelson og Jorma Panula. Tvítugur að aldri yfirgaf hann heimalandið og hélt til frekara náms í Amsterdam og Freiburg þar sem hann aflaði sér viðurkenningar sem einn af fremstu víóluleikurum Evrópu, bæði sem einleikari og kammermúsíkant. Hann ákvað síðan að snúa sér alfarið að hljómsveitarstjórn og slóst brátt í hóp fremstu stjórnenda af yngri kynslóðinni.

Raiskin var aðalstjórnandi Rínar-fílharmóníunnar í Koblenz frá 2005 til 2016 og gegndi á árunum frá 2008 til 2015 sömu stöðu við Artur Rubinstein fílharmóníuna í Łódz í Póllandi. Hann kemur reglulega fram sem gestastjórnandi með hljómsveitum í Evrópu, Asíu og Ameríku og má þar nefna Fílharmóníusveitina í Belgrad, Sinfóníuhljómsveitirnar í Düsseldorf og Malmö, Mariinsky-hljómsveitina, Mozarteumhljómsveitina í Salzburg, Útvarpshljómsveitina í Prag og Fílharmóníusveitirnar í Varsjá og Shanghai. Raiskin hefur einnig gegnt stöðum aðalgestastjórnanda Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Belgrad og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Tenerife, og árið 2018 tók hann við stöðu aðalstjórnanda hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Winnipeg í Kanada.

Raiskin hefur látið að sér kveða í óperuheiminum. Svo nokkur dæmi séu tekin, þá stjórnaði hann fyrir nokkrum árum Minskhljómsveitinni í eftirminnilegri uppfærslu á Don Giovanni á Óperuhátíðinni í St. Margarethen í Austurríki. Óperunni Carmen stýrði hann hjá þýska óperufélaginu Opera Zuid og í Þjóðarleikhúsi Koblenz þar sem óperan Nefið eftir Shostakovitsj hljómaði einnig undir hans stjórn. Hljóðritanir Raiskins fyrir AVI-útgáfufyrirtækið með sellókonsertum eftir Korngold, Bloch og Goldschmidt ásamt Julian Steckel hlutu Echo Klassikverðlaunin 2012 en nýlegar hljóðritanir hans af sinfóníu nr. 3 eftir Mahler og sinfóníu nr. 4 eftir Shostakovitsj hafa einnig hlotið lofsamlega dóma.

Daniel Raiskin stjórnar nú Ungsveit SÍ í þriðja sinn, en hann hélt fyrstu tónleika sína með sveitinni haustið 2017. Hann hefur einnig stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, á tónleikunum Ungir einleikarar og á Norrænum músíkdögum 2016.