EN

David Danzmayr

Hljómsveitarstjóri

Austurríski hljómsveitarstjórinn David Danzmayr er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Oregonríki í Bandaríkjunum og heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Zagreb, þar sem hann var áður aðalhljómsveitarstjóri. Hann er einnig stjórnandi ProMusica kammersveitarinnar í Columbus, Ohio, en hana skipar tónlistarfólk hvaðanæva að úr Bandaríkjunum. Danzmayr stundaði nám í píanóleik og hljómsveitarstjórn við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og útskrifaðist þaðan með láði. Hann var styrkþegi Gustav Mahler-æskuhljómsveitarinnar þar sem Claudio Abbado og Pierre Boulez leiðbeindu honum og nam einnig hjá Leif Segerstam við Sibelius-akademíuna í Helsinki. Í kjölfarið var hann aðstoðarmaður Neeme Järvi, Stéphane Denève, Andrew Davis og Pierre Boulez.

Danzmayr var um þriggja ára skeið aðstoðarhljómsveitarstjóri Skosku þjóðarhljómsveitarinnar í Glasgow og stjórnaði hljómsveitinni yfir 70 sinnum víða um Skotland. Hann hefur síðan verið fastur gestastjórnandi hljómsveitarinnar auk þess að stjórna mörgum öðrum þekktum hljómsveitum austan hafs og vestan. Ferill hans í Bandaríkjunum hefur staðið með miklum blóma síðustu ár og hann hefur þar stjórnað meðal annars sinfóníuhljómsveitum í Cincinnati, Minnesota, Seattle, Baltimore, Indianapolis og Houston. Á meginlandi Evrópu hefur Danzmayr til að mynda unnið með Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, sinfóníuhljómsveitunum í Hamborg, Bamberg og Basel, og útvarpshljómsveitunum í Vínarborg og Stuttgart.