Denis Kozhukhin
Píanóleikari
Rússneski píanistinn Denis Kozhukhin er ein skærasta píanóstjarna síðari ára. Hann fæddist í Nízhníj Novgorod árið 1986 og er af tónlistarfólki kominn. Hann hóf píanónám hjá móður sinni fimm ára gamall og hélt áfram námi við Balakirev-tónlistarskólann og við Reina Sofía-tónlistarskólann í Madrid þar sem Dimitri Bashkirov var meðal kennara hans.
Kozhukhin hlaut fyrstu verðlaun í Queen Elisabeth-keppninni í Brussel árið 2010 og síðan þá hefur ferill hans verið ein samfelld sigurganga. Hann hefur leikið einleik m.a. með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, Sinfóníuhljómsveitunum í Chicago og Lundúnum, Staatskapelle í Berlín, Fílharmóníusveitunum í Ósló og Stokkhólmi, og þannig mætti lengi telja. Meðal hljómsveitarstjóra sem hann hefur starfað með má nefna Daniel Barenboim, Sir Simon Rattle, Valeríj Gergíev, Vladimir Ashkenazy og Vladimir Jurowski. Nýjasti hljómdiskur hans, með verkum eftir Mendelssohn og Grieg, var valinn einn af diskum mánaðarins hjá Gramophone. „Kozhukhin hefur hæfileikann til að glæða jafnvel ofspiluð verk nýju lífi með ímyndunarafli sínu og músíkalíteti“, sagði rýnir tímaritsins.
Kozhukhin lék píanókonsert eftir Prokofíev með Sinfóníuhljómsveit Íslands snemma árs 2019 og vakti gífurlega hrifningu tónleikagesta. „Einhver mesta flugeldasýning sem maður hefur upplifað“, fullyrti gagnrýnandi Fréttablaðsins, og sagði jafnframt að „yfirmáta glæsilegur“ flutningurinn hafi verið „svo spennuþrunginn og ofsafenginn að maður leitaði ósjálfrátt að beltum í sætinu til að hendast ekki til og frá“. Nú gefst tækifæri til að endurnýja kynnin af þessum frábæra píanóleikara.