EN

Denis Kozhukhin

Píanóleikari

 

Rússneski píanistinn Denis Kozhukhin er ein skærasta píanóstjarna síðari ára. Hann hlaut fyrstu verðlaun í Queen Elisabeth-keppninni í Brussel 2010, aðeins 23 ára gamall, og á síðasta tónleikaári lék hann m.a. með heimsþekktum stjórnendum á borð við Daniel Barenboim og Simon Rattle. Hljóðritun hans á píanókonsertum eftir Tsjajkovskíj og Grieg hefur fengið mikið lof og var valin diskur mánaðarins hjá tímaritinu Gramophone. Kraftmikill píanóleikur hans sver sig í ætt við „rússneska skólann“ svonefnda og hann þykir einstaklega góður túlkandi tónlistar eftir m.a. Prokofíev og Rakhmanínov.

Kozhukhin hefur á síðustu árum komið fram með mörgum helstu hljómsveitum heims, m.a. Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, Sinfóníuhljómsveitinni í Chicago og Mahler-kammersveitinni, auk þess að halda einleikstónleika í Konzerthaus í Vínarborg, Wigmore Hall í Lundúnum, og Boulez-salnum í Berlín. Sem kammerflytjandi hefur hann m.a. leikið með Janine Jansen, Leonidas Kavakos, Alisu Weilerstein og Emmanuel Pahud. Hann fæddist í Rússlandi árið 1986 í mikla tónlistarfjölskyldu og hóf píanónám hjá móður sinni fimm ára gamall.