EN

Dirk Vermeulen

Belgíski hljómsveitarstjórinn Dirk Vermeulen hóf feril sinn sem fiðluleikari. Hann hefur leikið einleik undir stjórn helstu hljómsveitarstjóra í Evrópu og gegndi einnig konsertmeistarastöðu við Konunglegu flæmsku fílharmóníusveitina um nokkurra ára skeið. Árið 1985 snéri hann sér alfarið að hljómsveitarstjórn og stofnaði sex árum síðar kammersveitina Prima La Musica sem skipaði sér fljótt í hóp bestu hljómsveita Belgíu. Vermeulen hefur hlotið sérstakt lof fyrir flutning sinn á tónlist 18. aldar og snemmrómantískum verkum en hann hefur einnig verið atkvæðamikill í flutningi eldra barokks og samtímatónlistar. Á árunum 2000–2017 gegndi hann prófessorsstöðu í kammermúsík við Konunglega tónlistarháskólann í Brussel. 

Vermeulen hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum Belgíu og komið fram sem gestastjórnandi margra annarra evrópskra hljómsveita. Hann hefur stjórnað óperuflutningi víða í álfunni og er ekki síst handgenginn óperum Mozarts. Hann hefur hljóðritað tugi geisladiska, þar á meðal marga sem helgaðir eru verkum Mozarts og Haydns. Hljóðritun Vermeulens og Prima La Musica á Les Indes galantes eftir Rameau kom út hjá Eufoda útgáfunni árið 1998 og hlaut þá afbragðs viðtökur hjá gagnrýnanda breska tímaritsins Gramophone sem sagði að þar væri „heillandi hljómdiskur“ á ferð.

Þetta er í þriðja sinn sem Dirk Vermeulen stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands á aðventutónleikum en hann kom áður fram með sveitinni árin 2014 og 2018.