EN

Dúó Edda

Dúó Eddu skipa þær Vera Panitch fiðluleikari og Steiney Sigurðardóttir sellóleikari sem báðar eru félagar í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Fyrstu tónleikar Dúó Eddu voru í Eldborgarsal Hörpu vorið 2020. Síðan þá hafa þær haldið fjölda tónleika, bæði á Íslandi og í Danmörku. Í nóvember 2020 hlutu þær þriðju verðlaun í Kammermúsíkkeppni á vegum dönsku útvarpsstöðvarinnar P2. Dúó Edda leggur mikla áherslu á að flytja tónlist frá Norðurlöndunum og er markmið hópsins að hafa að minnsta kosti eitt norrænt verk á hverju prógrammi.

Vera Panitch, fædd 1993 í Kaupmannahöfn, hóf fiðlunám hjá Arkadi Zelianodjevo. Árið 2005 fluttist hún til Seattle og hélt þar áfram námi hjá fiðluleikaranum Yuriy Mikhlin. 15 ára gömul hóf hún nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium hjá fiðluleikaranum Alexandre Zapolski og lauk þar meistaranámi og sólistanámi með hæstu einkunn. Við nám í Kaupmannahöfn lærði hún einnig kammermúsik undir handleiðslu Tim Frederiksen. Vera hefur unnið til verðlauna í mörgum keppnum í Danmörku og í útlöndum. Árið 2016 vann Vera stöðu uppfærslumanns annarrar fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur síðan þá einnig unnið stöðu annars Konsertmeistara hjá hljómsveitinni.

Steiney Sigurðardóttir er fædd árið 1996. Hún hóf sellónám 5 ára gömul hjá Örnólfi Kristjánssyni og var nemandi hans í átta ár við Suzuki tónlistarskólann í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins. Hún lauk framhaldsprófi vorið 2012 undir handleiðslu Gunnars Kvaran, aðeins 16 ára gömul. Frá áramótum 2013 til ársins 2015 var hún nemandi Sigurgeirs Agnarssonar við Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með burtfararpróf. Steiney hlaut styrk Halldórs Hansen fyrir framúrskarandi námsárangur og fyrir burtfararpróf sitt. Hún hóf nám 2016 í Tónlistarháskólanum í Trossingen þar sem hún lærði í fjögur ár undir handleiðslu Prof. Francis Gouton. Steiney hefur leikið einleik með Hljómsveit Tónlistarskóla Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðan 2019 hefur hún gegnt starfi staðgengils leiðara í sellódeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands.