EN

Emmanuel Pahud

Flautuleikari

Fransk- svissneski flautuleikarinn Emmanuel Pahud varð frægur á einni nóttu þegar hann tók við stöðu fyrsta flautuleikara Berlínarfílharmóníunnar árið 1993, aðeins 23ja ára gamall. Hefur hann allar götur síðan verið eftirsóttur einleikari með helstu hljómsveitum austan hafs og vestan og starfað með virtustu hljómsveitarstjórum samtímans. Á verkalista hans eru helstu konsertar sem skrifaðir hafa verið fyrir flautu en auk þess hefur hann hvatt tónskáld til dáða og frumflutt marga nýja konserta. Má þar nefna verk eftir Frank Michael Beyer, Elliot Carter og Luca Lombardi.

Kammertónlist hefur einnig verið snar þáttur í starfi Pahuds og hefur hann ferðast víða um Evrópu, Bandaríkin og Japan, meðal annars með píanóleikaranum Éric Le Sage. Ásamt honum og klarínettuleikaranum Paul Meyer stofnaði hann alþjóðlegu kammertónlistarhátíðina l'Empéri í Salon-de-Provence í Suður-Frakklandi og fagnaði hún nú í sumar sínu 31. starfsári.

Áhugi Pahuds á þverflautunni kviknaði snemma. Vegna starfa föður hans var fjölskyldan á faraldsfæti og fyrstu fjögur æviár Pahuds bjó hún í París, Bagdad og Madrid uns hún settist að í Róm þar sem Emmanuel heyrði í fyrsta sinn tóna úr þverflautu frá nærliggjandi íbúð. Tveimur árum síðar hlaut hann sína fyrstu tilsögn í flautuleik. Síðar lærði hann í Brüssel hjá Michel Moinil, þá í París hjá Michel Debost og hjá Aurèle Nicolet í Basel. Fimmtán ára gamall vann hann Þjóðarkeppnina í Belgíu (Le concours National de Belgique) og síðar þrjár alþjóðlegar tónlistarkeppnir, í Duino á Ítalíu 1988, Kobe í Japan og í Genf 1992.

Emmanuel Pahaud hefur hljóðritað og gefið út yfir 40 hljómplötur á vegum Warner Classics (áður EMI). Hefur hann hlotið margs konar viðurkenningar og árið 2017 var hann útnefndur heiðursforseti franska flautuleikarafélagsins.