EN

Erna Vala Arnardóttir

Píanóleikari

Erna Vala Arnardóttir píanóleikari fædd 1995, hefur komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu ár auk þess að vinna til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Þar má helst nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands, Sauli Niinistö, og fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA píanókeppninnar á Íslandi. Þá var hún ein verðlaunahafa Ungra einleikara árið 2014. 

Erna Vala hefur leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna. Síðustu misseri hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífi á Íslandi. Erna Vala stofnaði menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Erna Vala er stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Seiglu sem haldin er árlega í byrjun ágúst í Hörpu. Hún hefur leikið einleikstónleika meðal annars við Tíbrá, Menning á miðvikudögum og Beethoven 251 tónleikaraðir Salarins í Kópavogi. Hún hefur komið fram sem gestalistamaður ýmissa hátíða, þar má nefna Við Djúpið á Ísafirði, Fulbright Arctic Initiative í Washington D.C., Albignac Piano Festival í Frakklandi og Trinity Laban samtímalistahátíðar í London. 

Erna Vala lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris vorið 2019. Hún hóf doktorsnám sama ár við USC Thornton School of Music í Kaliforníu sem Fulbright styrkþegi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu og diplóma í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté. Um þessar mundir hlýtur hún starfslaun úr launasjóði tónlistarflytjenda. Hún mun útskrifast með aðra meistaragráðu sína í tónlist í vor, í þetta skiptið í hljóðfærakennslu úr Listaháskóla Íslands.