EN

Eva Ollikainen

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen hefur verið ráðin í stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tekur við stöðunni í byrjun starfsársins 2020/21 og stjórnar fjölda tónleika, m.a. upphafstónleikum starfsársins.

Eva Ollikainen hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim fyrir innblásna hljómsveitarstjórn. Hún hóf píanónám þriggja ára og þótti efnilegur píanisti, en þegar komið var í Sibeliusar-akademíuna skipti hún um fag og nam hljómsveitarstjórn hjá Jorma Panula og Leif Segerstam. Hún hreppti fyrstu verðlaun í Panula-keppninni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2003 og var um skeið aðstoðarstjórnandi hjá Kurt Masur og Christoph von Dohnányi. Hún sótti einnig tíma í hljómsveitarstjórn hjá Pierre Boulez.

Ollikainen hefur meðal annars stjórnað Útvarpshljómsveitunum í Finnlandi og Svíþjóð, Fílharmóníusveitunum í Stokkhólmi og Turku, Tapiola-sinfóníettunni og Sinfóníuhljómsveitunum í Helsingborg, Lahti og Þrándheimi. Þá hefur hún stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Vínarborg og Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín. Fyrir skömmu stjórnaði hún í fyrsta sinn Fílharmóníusveitinni í Helsinki, í Níundu sinfóníu Beethovens, og nýrri uppfærslu af Turandot eftir Puccini í Dönsku óperunni. Þá stjórnaði hún Beethoven-hring með Jönköping Sinfonietta og ballettunum Hnotubrjótnum og Svanavatninu við Semperoper í Dresden.

Ollikainen kom fyrst til Íslands haustið 2005 og stjórnaði framhaldsskólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar með nær engum fyrirvara. Hún stjórnaði hljómsveitinni þrisvar sinnum á áskriftartónleikum á árunum 2007–10, meðal annars í sinfóníu nr. 4 eftir Brahms og Dafnis og Klói eftir Ravel, við frábærar undirtektir. Hún stjórnaði í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019 og skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalstjórnandi hennar.