EN

Eva Ollikainen

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen hefur vakið mikla athygli fyrir tónlistarhæfileika sína. Hún hefur m.a. nýverið stjórnað Töfraflautunni við Konunglegu sænsku óperuna og Carmen við Gautaborgaróperuna, auk þess sem hún mun brátt þreyta frumraun sína hjá Fílharmóníuhljómsveitinni í Helsinki, þar sem hún mun stjórna Níundu sinfóníu Beethovens. Hún er listrænn stjórnandi Norrænu kammersveitarinnar í Sundsvall, og mun á næstunni stjórna Hnotubrjótnum við Finnsku þjóðaróperuna og nokkrum uppfærslum við Semperoper í Dresden.

Ollikainen lagði stund á nám í hljómsveitarstjórn við Sibelius-akademíuna, þar sem hún lærði hjá Leif Segerstam og Jorma Panula. Hún hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkrum sinnum áður, m.a. í Ófullgerðu sinfóníu Schuberts og Dafnis og Klói eftir Ravel, en þetta verður í fyrsta sinn sem hún stjórnar hljómsveitinni í Hörpu.