EN

Geir Draugsvoll

Harmóníkuleikari

Norðmaðurinn Geir Draugsvoll er einn fremsti harmóníkuleikari heims. Hann hefur leikið í flestum helstu tónleikasölum heims, meðal annars í Concertgebouw í Amsterdam, Barbican í Lundúnum, Konzerthaus í Berlín og Mariinskíj-leikhúsinu í Sankti Pétursborg. Meðal þeirra hljómsveita sem hann hefur komið fram með má nefna Sinfóníuhljómsveit Lundúna og Þjóðarhljómsveit Rússlands, en auk þess að leika víða um heim er hann prófessor við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn.

Draugsvoll hefur um árabil starfað náið með Sofiu Gubaidulinu, sem hefur samið allnokkur verk fyrir bajan, eða rússneska takkaharmóníku. Gubaidulina tileinkaði Draugsvoll einmitt Fachwerk, sem gagnrýnandi BBC Music Magazine segir vera „töfrandi ljóðræna fantasíu“, og sem hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Draugsvoll leikur tvisvar sinnum með Sinfóníuhljómsveit Íslands á þessu starfsári, í bæði skiptin hrífandi tónsmíðar Gubaidulinu sem einmitt fagnar níræðisafmæli sínu í október 2021.

https://geirdraugsvoll.com/