EN

Gjörningaklúbburinn: Flökkusinfónía

Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir

Flökkusinfónía er nýstárlegt verk eftir Gjörningaklúbbinn þar sem myndlist, tónlist og kvikmyndalist renna saman í eitt. Verkið er í formi gjörnings og kvikmyndar við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Gjörningaklúbburinn er skipaður myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur. Við gerð Flökkusinfóníu fengu þær tónskáldin Ólaf Björn Ólafsson og Unu Sveinbjarnardóttur til liðs við sig ásamt hópi kvikmyndagerðarfólks, dansara, leikara og fimleikafólks. Í flutningi verksins í Eldborg taka auk Gjörningaklúbbsins, dansararnir Valgerður Rúnarsdóttir og Díana Rut Kristinsdóttir þátt auk sópransöngkonunnar Þóru Einarsdóttur.

Um verkið segja Eirún og Jóní eftirfarandi: 

Flökkusinfónía býður upp á abstrakt ferðalag þvert á tungumál þar sem flökkutaugin, samkenndartaug líkamans er virkjuð og ýtt undir einstaklingsbundna og um leið hnattræna samkennd þvert á menningarheima í sífellt misskiptari heimi. 

Sinfónían byggir m.a. á upplifun miðils á forsögu elstu hljóðfæra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í verkinu er allt skynróf líkamans virkjað á flakki um óræða heima á mörkum draums og veruleika. Frá upphafshvelli að uppljómun í gegnum sjö heimsálfur líkamans. 

Flökkusinfónían er samstarfsverkefni Gjörningaklúbbsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Gjörningaklúbburinn hefur starfað óslitið frá árinu 1996.

Hugmyndir hans tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og einlægni. Unnið er í þá miðla sem þjóna inntaki verkanna hverju sinni, svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar. Verkfræði ömmunnar er iðulega innan seilingar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni.

Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim, þar á meðal ARoS listasafninu í Danmörku, MoMA samtímalistasafninu í New York, Kunsthalle Wien í Austurríki, Schirn Kunsthalle og samtímalistasafninu Hamburger Bahnhof í Berlín, Amos Anderson listasafninu í Helsinki og Lilith Performance Studio í Svíþjóð.