EN

Gunnsteinn Ólafsson

Hljómsveitarstjóri

Gunnsteinn Ólafsson fæddist á Siglufirði árið 1962 en ólst upp í Kópavogi. Hann stundaði nám í tónsmíðum frá unglingsaldri hjá Jóni Ásgeirssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík og stjórnaði Kór Menntaskólans í Kópavogi samhliða námi þar í fjögur ár. Gunnsteinn hélt til náms í tónsmíðum við Franz Liszt-tónlistarakademíuna í Búdapest árið 1983 og í hljómsveitarstjórn og tónfræðum við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi árið 1987, þaðan sem hann lauk námi vorið 1992. Tveimur árum síðar vann hann til verðlauna í keppni ungra norrænna hljómsveitarstjóra í Björgvin í Noregi.

Frá því að Gunnsteinn sneri heim til Íslands hefur hann starfað jöfnum höndum sem tónskáld, kór- og hljómsveitarstjóri og kennari við LHÍ og MÍT. Hann vakti ungur athygli fyrir að frumflytja hér á landi nokkur merkustu verk barokktímans, svo sem Orfeo og Maríuvesper eftir Monteverdi og Arthúr konung eftir Purcell. Gunnsteinn hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og stjórnað óperusýningum, m.a. í Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu. Þá stjórnar Gunnsteinn Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, en með þeim hefur hann frumflutt fjölmörg ný íslensk verk og stórvirki á borð við óperuna Galdraskyttuna eftir Weber í eigin þýðingu, óratoríuna Lobgesang eftir Mendelssohn og Sjávarsinfóníuna eftir Vaughan-Williams fyrir einsöngvara, kór og hljómsveit.

Gunnsteinn hefur samið margvísleg kór- og einsöngslög og ævintýraóperuna Baldursbrá. Þá stofnaði hann Þjóðlagahátíðina á Siglufirði árið 2000 og kom á fót þjóðlagasetri þar í bæ árið 2006 í samvinnu við heimamenn.