EN

Hanna Dóra Sturludóttir

Einsöngvari

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og átt farsælan feril í óperum og tónleikahúsum víða um heim, þar á meðal í Þýskalandi, Póllandi, Austurríki, Frakklandi, Kanada, Egyptalandi og Katar. Síðastliðinn vetur söng Hanna Dóra aðalhlutverkið í Innocence, óperu finnska tónskáldsins Kaiju Saariaho, við óperuhúsið í Gelsenkirchen í Þýskalandi og hreppti fyrir það leikhúsverðlaun borgarinnar (Gelsenkirchener Theaterpreis). Hanna Dóra hefur sungið hlutverk í fjölmörgum sýningum Íslensku óperunnar og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, ásamt fjölda erlendra hljómsveita. Hún er prófessor og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. 

Hanna Dóra hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2014 fyrir túlkun sína á Eboli prinsessu í óperunni Don Carlos eftir Verdi í uppsetningu Íslensku óperunnar. Hún vakti einnig verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins 2021. Þá hefur Hanna Dóra tvisvar verið tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins, nú síðast fyrir hlutverk sitt í Brím, nýrri óperu eftir Friðrik MargrétarGuðmundsson sem sett var upp fyrr á þessu ári.