EN

Helena Juntunen

Einsöngvari

Finnska sópransöngkonan Helena Juntunen hóf söngnám hjá Airi Tokola í Oulu-konservatóríinu 15 ára gömul. Hún lauk síðar meistaraprófi frá Sibeliusarakademíunni þar sem aðalkennari hennar var Anita Välkki. Atvinnumannsferill hennar hófst þegar hún söng hlutverk Margrétar í óperunni Fást eftir Gounod á óperuhátíðinni í Savonlinna í Finnlandi árið 2002. Hún söng sama hlutverk í Connecticut-óperunni í Bandaríkjunum ári síðar og þreytti á sama starfsári frumraun sína í Genúa sem frú Cortese í óperunni Ferðin til Reims eftir Rossini, sem Zedenka í óperunni Arabella eftir Richard Strauss og í hlutverki Paminu í Töfraflautu Mozarts. Þessu til viðbótar hélt hún sína fyrstu tónleika í Carnegie Hall í New York haustið 2003 og í framhaldinu í Tókýó.

 

Helena Juntunen hefur verið fastagestur Finnsku Þjóðaróperunnar síðan 1999 og sungið fjölmörg hlutverk í helstu óperuhúsum austan hafs og vestan. Auk hlutverka sem áður er getið hefur hún m.a. sungið hlutverk greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, Mimi í La Bohème eftir Puccini, Marie í Wozzeck eftir Alban Berg og Tatjönu í Evgeníj Ónegin eftir Tsjajkovskíj. Þá hefur hún sungið leiðandi hlutverk í nútímaóperum svo sem Anna Liisa eftir Veli-Matti Puumala og Puhdistus eftir eistneska tónskáldið Jüri Reinvere.

Helena Juntunen hefur komið fram sem einsöngvari með mörgum helstu hljómsveitum, þar á meðal Berlínarfílharmóníunni, Konunglegu fílharmóníunni í Stokkhólmi og BBC-sinfóníuhljómsveitinni í Lundúnum og unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Esa-Pekka Salonen, Osmo Vänskä og Hannu Lintu. Fyrir Ondine-útgáfuna hefur hún m.a. flutt ljóð eftir Leevi Madetoja og sungið í heildarútgáfum á óperum Rautavaaras Aleksis Kivi og Auringon talo (Hús sólarinnar). Þá hljómar rödd hennar í tónaljóðinu Luonnotar eftir Sibelius sem og í heimsfrumflutningi á hljómsveitargerð sönglaga hans Höstkväll (Haustkvöld) og Hertig Magnus (Magnús hertogi) á BIS-hljómdiski undir stjórn Osmos Vänskä.