EN

Isabelle Faust

Fiðluleikari

 

Þýski fiðluleikarinn Isabelle Faust er einn eftirtektarverðasti tónlistarflytjandi samtímans og hljómdiskar hennar hafa sópað til sín viðurkenningum undanfarinn áratug.

Faust vakti fyrst verulega athygli þegar hún hreppti fyrstu verð­ laun í Leopold Mozart­keppninni árið 1987, en þar hlaut ungur íslenskur fiðluleikari að nafni Sigrún Eðvaldsdóttir annað sæti. Faust bar einnig sigur úr býtum í Paganini­keppninni árið 1993 og í kjölfarið fór ferill hennar á flug. Hún hefur flutt mikið af nútímatónlist, m.a. eftir Ligeti, Feldman og Nono, auk þess sem hún hefur tamið sér flutningsmáta 18. aldar eins og glöggt heyrist í túlkun hennar á Bach og Mozart. Meðal hljómsveitarstjóra sem Faust hefur starfað með má nefna Claudio Abbado, Bernard Haitink, Sir John Eliot Gardiner og Mariss Jansons.

Hljóðritanir Faust hafa hlotið ótal verðlaun, meðal annars Gramophone­verðlaunin og Diapason d'or. Diskar hennar með einleiksverkum Bachs hafa hlotið einróma lof en nýjustu hljóðritanir hennar eru fiðlukonsertar Bachs með Akademie für Alte Musik Berlin og hlaut hann meðal annars fimm stjörnu dóm í The Times. Hún hefur gegnt stöðu prófessors við Listaháskólann í Berlín frá árinu 2004 og meðal fyrrum nemenda hennar þar er Helga Þóra Björgvinsdóttir sem nú leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Faust leikur á svonefndan Þyrnirósar­Stradivarius frá árinu 1704, sem þykir ein besta fiðla ítalska meistarans. Hún var staðarlistarmaður við Fílharmóníuna í Köln starfsárið 2018–19.

Isabelle Faust var staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2010–11 og lék þá fiðlukonserta eftir Beethoven og Stravinskíj í Háskólabíói.