EN

Isabelle Faust

Fiðluleikari

Isabelle Faust er einn eftirtektarverðasti fiðluleikari samtímans og hljómdiskar hennar hjá Harmonia Mundi hafa sópað til sín viðurkenningum síðustu árin. Hún hefur meðal annars komið fram með Berlínarfílharmóníunni og á Proms-hátíðinni í Lundúnum, auk þess sem hún hlaut Gramophone-verðlaunin 2017 fyrir túlkun sína á konsertum Mozarts.

Isabelle Faust hreppti fyrstu verðlaun í Leopold Mozart-keppninni árið 1987, þar sem ungur íslenskur fiðluleikari að nafni Sigrún Eðvaldsdóttir lenti í öðru sæti. Faust endurtók leikinn í Paganini-keppninni 1993 og í kjölfarið fór ferill hennar á flug. Hún hefur flutt mikið af nútímatónlist, m.a. eftir Ligeti, Feldman og Nono, auk þess sem hún hefur kynnt sér flutningsmáta barokktímans eins og glöggt heyrist í túlkun hennar á Bach og Beethoven. Meðal hljómsveitarstjóra sem Faust hefur starfað með má nefna Claudio Abbado, John Eliot Gardiner og Mariss Jansons. Starfsárið 2017/18 var hún staðarlistamaður í Wigmore Hall í Lundúnum.

Faust leikur á svonefndan Þyrnirósar-Stradivarius frá árinu 1704, sem þykir ein besta fiðla ítalska meistarans. Hún var staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2010–11.