EN

Jean-Yves Thibaudet

Píanóleikari

Franski píanistinn Jean-Yves Thibaudet hefur um áratuga skeið verið einn sá fremsti á heimsvísu. Hljóðritanir hans hafa selst í metupplögum og hann hefur haldið tónleika með stjörnulistamönnum á borð við Joshua Bell, Renée Fleming og Ceciliu Bartoli. Hann hefur óvenjubreitt verkefnaval, allt frá djassi til umritana á óperuaríum, og hefur leikið bæði nýja og eldri tónlist. Á síðasta tónleikaári lék Thibaudet í 14 löndum, m.a. í Kína og Japan, auk þess sem hann kom fram víða í Bandaríkjunum; hann lék m.a. konsert Bachs fyrir þrjú píanó með Thomas Adès og Kirill Gerstein, og lék einnig í Carnegie Hall, m.a. á tónleikum með Janine Jansen.

Thibaudet hefur hljóðritað yfir 50 geisladiska og hefur hlotið fyrir þá tvær Grammy-tilnefningar, verðlaun þýskra plötugagnrýnenda, Diapason d'Or, Choc du Monde de la Musique, Edison-verðlaunin og Gramophone-verðlaunin fyrir hljóðritanir sínar. Í tilefni af því að 150 ár voru liðin frá fæðingu Eriks Satie árið 2016 gaf Decca út öll píanóverk Saties í flutningi Thibaudets. Hann lék á píanó í tónlist Darios Marianelli við kvikmyndina Atonement eða Friðþæging (sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndatónlist) og í tónlist Alexandres Desplat fyrir Extremely Loud & Incredibly Close. Dame Vivienne Westwood hannar tónleikaklæðnað Thibaudets.

Thibaudet fæddist í Lyon í Frakklandi. Hann hóf píanónám fimm ára gamall og kom í fyrsta sinn fram opinberlega tveimur árum síðar. Hann hóf nám við Konservatoríið í París tólf ára og vann til Young Concert Artists verðlaunanna í New York átján ára að aldri.

Thibaudet kemur í fyrsta sinn á Íslandi á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí 2019. Þar leikur hann píanókonsert nr. 3 eftir skoska tónskáldið James MacMillan, en Thibaudet frumflutti verkið árið 2011 með Minnesota-hljómsveitinni undir stjórn Osmo Vänskä og hefur leikið það víða um heim síðan, m.a. með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam og Fílharmóníusveit Los Angeles.