EN

Johannes Moser

Sellóleikari

Þýsk-kanadíski sellóleikarinn Johannes Moser fæddist inn í tónlistarfjölskyldu árið 1979 og hóf nám á hljóðfæri sitt átta ára gamall. Hann stóð á verðlaunapalli í hinni virtu Tsjajkovskíj-keppni árið 2002 og árið 2014 var hann heiðraður með hinum þýsku Brahms-verðlaunum fyrir framúrskarandi persónuleika sinn og túlkun á sviði klassískrar tónlistar.

Hann hefur leikið með mörgum af helstu sinfóníuhljómsveitum veraldar, þar á meðal fílharmóníuhljómsveitunum í Berlín, New York og Los Angeles, Lundúnasinfóníunni, Bæversku útvarpshljómsveitinni, Concertgebouw-hljómsveitinni, Tonhalle-hljómsveitinni í Zürich, Tokyo NHK sinfóníunni, og hljómsveitunum í Fíladelfíu, Boston, San Francisco og Cleveland. Þá hefur hann unnið með nafntoguðum hljómsveitarstjórum á borð við Riccardo Muti, Lorin Maazel, Mariss Jansons, Zubin Mehta, Vladimir Jurowski, Franz Welser-Möst, Christian Thielemann, Pierre Boulez, Paavo Järvi, Semyon Bychkov, Valery Gergiev, Yannick Nézet-Séguin, Kirill Petrenko og Gustavo Dudamel.

Johannes Moser hefur hljóðritað nokkra af helstu sellókonsertum tónbókmenntanna og uppskorið Þýsku gagnrýnendaverðlaunin og frönsku Diapason d'Or-viðurkenninguna fyrir diskana.

Hann er mjög virkur á sviði kammertónlistar og kemur reglulega fram á virtum tónlistarhátíðum um víða veröld. Í hópi meðspilara hans má nefna Emanuel Ax, Joshua Bell, Jonathan Biss, James Ehnes, Vadim Gluzman, Leonidas Kavakos, Midori, Menahem Pressler, Andrej Korobeinikov and Marc-Andre Hamelin.

Moser hefur á ferli sínum átt drjúgan þátt í að útvíkka tónbókmenntir hljóðfæris síns og hefur pantað verk frá fjölmörgum tónskáldum. Þannig frumflutti hann Magnetar fyrir rafmagnsselló eftir Enrico Chapela með Los Angeles fílharmóníunni undir stjórn Gustavos Dudamel árið 2011 og árið eftir sellókonsertinn Up-close eftir Michael van der Aa með sömu hljómsveit.

Johannes Moser kennir við Tónlistarháskólann í Köln. Hann leikur á Andres Guarneri-selló frá 1694 sem er í einkaeigu.