EN

Jóna G. Kolbrúnardóttir

Einsöngvari

Jóna G. Kolbrúnardóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2014. Sama haust hélt hún í framhaldsnám til Vínarborgar og sumarið 2018 lauk hún bakkalárgráðu frá Tónlistarháskólanum í Vín. Hún útskrifaðist með meistaragráðu vorið 2021 frá Óperuakademíu Konunglegu óperunnar í Kaupmannahöfn. Jóna hefur verið virk í tónlistarlífinu hérlendis síðustu ár. Hún hefur komið fram sem einsöngvari á þó nokkrum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, síðast á Vínartónleikum sveitarinnar 2020 og á Klassíkin okkar 2021. Jóna þreytti frumraun sína hjá Íslensku óperunni sem Gréta í óperunni „Hans og Gréta“ árið 2018. Hún fór með sitt fyrsta hlutverk við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn haustið 2020, þar sem hún söng Papagenu í „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Jóna er einn af stofnendum Kammeróperunnar sem er nýstofnað tónlistarfélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að skapa vettvang fyrir smærri óperuverkefni. Jóna syngur einnig í Kammerkvartettnum á vegum félagsins sem hefur nú þegar verið öflugur í tónlistarlífinu á Íslandi. Í október 2022 fór hún með hlutverk Önnu í óperunni „Brothers“ eftir Daníel Bjarnason sem flutt var í Eldborg á vegum Íslensku óperunnar. Í sama mánuði fór Jóna með hlutverk Despinu í óperunni „Così fan tutte“ eftir Mozart, í fyrstu óperu uppfærslu Kammeróperunnar í Iðnó.